Uppröðun í eldhúsi

Öll erum við mismunandi og gerum þar af leiðandi mismunandi hluti á mismunandi vegu. Öll höfum við væntingar til þess sem við gerum í lífinu, mismunandi væntingar. Flest lendum við í veikindum einhvern tímann á lífsleiðinni, þá skiptir máli að geta breytt og aðlagað það sem við gerum dags daglega. Fyrir fólk sem er slæmt í höndum er mikilvægt að spara sér það að halda lengi á hlutum og þá sérstaklega þyngri hlutum. Þá er mikilvægt að huga vel að því hvernig raðað er upp í eldhús og önnur vinnusvæði heima við.

Hér koma nokkur góð ráð sem vert er að hafa í huga til að auðvelda ýmis verk í eldhúsinu. 

  • Það sem mest er notað þarf helst að vera sem næst viðkomandi til þess að lágmarka álag á hendur við burð. Sem dæmi má nefna leirtau sem næst vask eða uppþvottavél.
  • Þeir hlutir sem mest eru notaðir og ekki er hægt að geyma á borðplötu er best að geyma í neðri hillum efri skápa og efstu skúffum eða skápum neðri einingar.
  • Ef um er að ræða skáp sem nær frá gólfi og upp í loft er best að geyma mest notuðu hlutina fyrir miðju.
  • Þegar um er að ræða þyngri hluti sem minna eru notaðir er betra að geyma þá frekar neðar en ofar og passa þá að beygja hné og mjaðmir þegar það þarf að beygja sig eftir þeim. Sem dæmi er gott að geyma skálar sem sjaldan eru notaðar í efri hillum og potta sem sjaldan eru notaðir í neðri hillum.
  • Fyrir þá sem eiga erfitt með að standa lengi þarf stundum að minna á að hægt er að sitja við margt sem þarf að gera í eldhúsi, einnig má notast við standstól. Til dæmis er hægt að skera niður matvæli sitjandi við eldhúsborðið.
  • Mikilvægt er að nota þau tæki sem eru við höndina til þess að létta sér verkin, t.d. hrærivél og önnur heimilistæki. Ef notaður er handþeytari þá er gott að hafa skálina ofan í vaskinum því þá þarf ekki að lyfta öxlinni meðan hrært er.
  • Bakaraofnar og þvottavélar er best að vera með upphækkað svo ekki þurfi að beygja sig við þau.
  • Hafa auð borð þar sem hægt er að leggja frá sér bæði úr ofni og ísskáp, svo ekki þurfi að bera lengri leiðir.

Þegar færniskerðing verður vegna sjúkdóma eins og t.d. gigtar þá eru miklar líkur á að þú þurfir að breyta vinnuaðferðum þínum til þess að geta tekist á við daglegt líf. Gott er þá að hugleiða hvernig þú ert vön/vanur að gera verkin og hugsa hvort að það sé til einhver önnur leið.

Guðbjörg Guðmundsdóttir, iðjuþjálfi
Sigrún Bjarglind Valdimarsdóttir, iðjuþjálfi

Birt í Gigtinni, 1. tbl. 2015