Hópleikfimi: Tai Chi - styrkur - jafnvægi,  hefst fimmtudaginn 23. janúar kl. 16:15

20. janúar 2014

Um er að ræða létta leikfimi byggða á grunnæfingum Tai Chi. Þetta eru rólegir leikfimitímar þar sem áhersla er lögð á að þjálfa líkamsvitund, jafnvægi, samhæfingu, styrk og úthald með rólegum hreyfingum. Tai chi, er ævaforn kínversk heilsurækt og var raunar upprunalega sjálfsvarnaríþrótt. Einkenni Tai chi eru hægar, mjúkar og flæðandi hreyfingar.  Lögð er áhersla á slökun í hreyfingum og öndun. Rannsóknir benda til að þetta form æfinga henti gigtarfólki einstaklega vel og bæti líkamlega færni þess.  Kennt er einu sinni í viku.  Tímarnir henta fólki vel sem er í annarri hreyfingu, sem er þó ekkert skilyrði. Kennt er á fimmtudögum kl. 16:15  Kennari er Anna Kristín Kristjánsdóttir sjúkraþjálfari.

Anna Kristín útskrifaðist frá Lundi, Svíþjóð árið 1972. Fékk diplómu sem meðferðaraðili og síðar kennari frá Institutet för Basal Kroppskännedom (BK) í Svíþjóð árið1996 og 2005. Lauk 60 ECT í Body Awareness Methodology frá Háskólanum í Bergen 2006.  Hefur lengst af starfað sem sjúkraþjálfari á LSH geðsviði og á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund við Hringbraut. Hún hefur verið stundakennari við H.Í  um árabil og kennt heilbrigðisstéttum líkamsbeitingu og vinnustellingar svo og ýmsum stéttarfélögum. Hún hefur stundað Tai Chi frá 1996 og veitt leiðsögn í Tai Chi frá 2005 bæði sjúkraþjálfurum og eldri borgurum. Hún byrjaði að leiðbeina hópi hjá Gigtarfélagi Íslands í janúar 2012.