Félagslegur og persónulegur kostnaður við liðbólgur og gigtarsjúkdóma

2. september 2008

Gigtarfélag Íslands vill vekja athygli á nýlegri skýrslu sem Dr. Stefán Ólafsson prófessor vann fyrir Norræna gigtarráðið í samvinnu við gigtarfélögin á Norðurlöndum. Skýrslan er byggð á forkönnun unninni á síðustu tveimur árum og nefnist Social and Personal Costs of Arthritis and Rheumatic Diseases. Skýrsluna ásamt íslenskri þýðingu (Félagslegur og persónulegur kostnaður við liðbólgur og gigtarsjúkdóma) á niðurstöðum skýrslunnar má finna hér á heimasíðu félagsins í flokknum Réttindi - Kostnaður. Um er að ræða Norrænan samanburð.

Í skýrslunni kemur fram að nær fjórðungur allra Evrópubúa þjást af gigt eða öðrum stoðkerfisvanda í einni eða annarri mynd. Gigt og stoðkerfisvandi hefur umtalsverð áhrif á lífsgæði fólks sem og kostnað samfélags.

Hér að neðan eru nokkur atriði dregin út úr niðurstöðunum..

  1. Heildarniðurstaða í hverju landi fyrir sig er nokkuð breytileg, allt eftir því hvaða þætti heilbrigðisþjónustunnar og hvaða sérstaka kostnaðarliði er verið að skoða. Útgjöld notenda virðast í heildina litið vera hvað mest á Íslandi og í Noregi, en lægst í Svíþjóð.
  2. Svo virðist sem íslenskt gigtarfólk sinni launavinnu í meiri mæli en venja er til í hinum löndunum. Í næstu sætum eru Noregur, Svíþjóð og Danmörk. Félagslegur kostnaður vegna gigtarsjúkdóma er langminnstur á Íslandi vegna meiri atvinnuþátttöku gigtarfólks (55-64 ára)
  3. Notendagjöld í hinum ýmsu þáttum heilbrigðisþjónustunnar eru almennt séð hæst á Íslandi, en næst koma svo Noregur og Danmörk. Einkum greinilegt hvað varðar heimsóknir til sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa, félagsráðgjafa, tannlækna og í röntgen.
  4. Danir njóta langódýrustu þjónustu lækna og sérfræðinga, en ekki er um nein bein notendagjöld þar að ræða.
  5. Á öllum Norðurlöndum nema Íslandi eru til staðar skilgreind viðmið um árlegan hámarkskostnað vegna lyfjakaupa.
  6. Á Íslandi fá fæstir tryggingabætur vegna örorku í aldurhópnum 55-64 ára. Hæst tíðni örorku í þessum aldurshópum á Norðurlöndum er í Finnlandi en Danmörk fylgir þar á eftir.
  7. Fjarvera frá vinnu vegna veikinda er minnst á Íslandi en Danir eru í öðru sæti. Fjarvera vegna veikinda er algengust í Svíþjóð og Noregi.

Stefán Ólafsson mun kynna meginniðurstöður í stuttu fræðsluerindi eftir aðalfund Gigtarfélags Íslands í kvöld á Grand Hótel við Sigtún.  Erindi mun hefjast um kl. 21:00.