Biðlistar eftir liðskiptaaðgerðum lengjast um fimmtung á ári

13. júlí 2008


Á heimasíðu Landlæknis, undir liðnum heilbrigðistölfræði, má sjá að biðlistar eftir liðskiptaaðgerðum eru um fimmtungi lengri nú í júní, en fyrir ári síðan. Ríflega 500 manns bíða nú eftir liðskiptaaðgerð (mjöðm og hné) og hefur fjölgað um 90 á árinu. Samkvæmt okkar upplýsingum er algengast að fólk bíði eftir aðgerð vel á annað ár, sem er ótækt og engum bjóðandi. 

Í landsáætlun um gigtarvarnir frá árinu 2005 var stytting þessara biðlista skoðuð sem forgangsmál. Í áætluninni stendur: "Nauðsynlegt er að stytta biðtíma enn frekar eftir liðskiptaaðgerðum. Gigtarráð telur þetta eitt af forgangsmálum í endurskoðun Landsáætlunar. Ásættanlegur hámarksbiðtími er þrír mánuðir".  

Þess ber að geta að aðgerðum fer fremur fjölgandi, en sú fjölgun er ekki í samræmi við þörf. Með auknu öryggi aðgerða og íhluta hefur breiðari aldurshópur not af aðgerðunum. Þá er aukinn skilningur fyrir því að aðgerðirnar eru þjóðhagslega hagkvæmar og gera fólki kleyft að taka þátt í samfélaginu að fullu. 

Það er ljóst að þörf fyrir liðskiptaaðgerðir mun ekki minnka á næstu árum og er megin skýring þess aldurskipting þjóðarinnar. Ný lyf við gigtarsjúkdómum gefa vissulega ákv. hópum svigrúm til bjartsýni, en slíkt hefur verið einfaldað um of í umræðunni. Til að mynda virðist algengi slitgigtar vera meira hér en annarrsstaðar og eykst með auknum aldri. Engin töfralausn virðist í sjónmáli varðandi þennan ættlæga sjúkdóm, sem herjar á fólk hvort sem það hreyfir sig eða hreyfir sig ekki, er þungt eða létt. 

Hér á landi vantar ekki hús eða skurðstofur til að mæta þessari þörf, ekki heldur sérfræðinga til að framkvæma aðgerðir og fjárfestingin skilar sér. Hvað veldur lengd þessara biðlista? Við athugun á þessum málum komst Gigtarráð, sem á að vera Heilbrigðisráðuneyti ráðgefandi í þessum málum, að þeirri niðurstöðu að sóknarfærin fælust í betri skilvirkni innan kerfisins sem og skynsamlegri aukningu fjármagns. Legupláss fyrir fólk eftir aðgerð eigi að nýta á réttan hátt og fjölga þarf hjúkrunarfræðingum svo mögulegt verði að hafa deildir opnar að fullu. Hér er hægt að ná betri árangri án mikils tilkostnaðar og bæta lífsgæði þessa fólks. Ná jafnari og betri árangri. 

Þess má geta að Gigtarfélagið á 2 fulltrúa af sjö í Gigtarráði. Mál þetta hefur verið í umræðu og skoðun hjá ráðinu frá því sl. haust. Gigtarráð hefur ekki náð fundi heilbrigðisráðherra um málið. 

Biðlistar munu ekki styttast á þeim mánuðum sem nú fara í hönd og því verður fróðlegt að sjá mælingu Landlæknisembættisins á biðlistunum í október nk.

Í þessari umræðu væri fróðlegt að vita (t.d. í október) hversu margir væru búnir að bíða eftir aðgerð í 12 mánuði, sem og útlistun á aldursamsetningu og þróunar heilsufars og félagslegra aðstæðna þeirra á sama tímabili. Það stekkur enginn inn af götunni og skiptir um hné eða mjöðm. Reglan er fremur sú að áratuga skert hreyfigeta og verkjaástand liggur að baki þá ákvörðun er tekinn, ástand sem er orðið hverjum manni nær óbærilegt.