• Undirbúningsfundur fyrir Reuma 2007

REUMA 2007 - Norræn þverfagleg ráðstefna um gigt.

7. ágúst 2007

Það er komið að Íslandi að halda norrænu þverfaglegu ráðstefnuna Reuma og Gigtarfélaginu er mikil ánægja að bjóða væntanlega þátttakendur velkomna. Ráðstefnan verður haldin dagana 12.-15. september nk. á Grand Hótel Reykjavík við Sigtún.

Þema ráðstefnunnar verður: Þekking, meðferð og lífsgæði.

Á Norðurlöndunum einum er talið að yfir 2 miljónir manna þjáist af gigt. Að öllum íkindum eru ríflega 60.000 íslendingar í sömu sporum. Afleiðingar gigtarsjúkdóma eru margvíslegar og geta haft mikil áhrif á lífsgæði fólks. Einkenni meðferðar við gigtarsjúkdómum er að hún er fjölfagleg og markhópur ráðstefnunar því hjúkrunarfræðingar, læknar, sjúkra- og iðjuþjálfar, félagsráðgjafar og aðrir er að meðferð koma, auk sjúklinga og starfsmanna gigtarfélaga og stofnana.

Markmið ráðstefnunnar er að miðla nýjustu þekkingu á gigtarsviði með fyrirlestrum og umræðum er nýtist þessum hópum. Sem dæmi verður fjallað um:

Nýjungar í lyfjameðferð, áhrif þreytu á lífsgæði, nýjustu erfðarannsóknir, verki og verkjameðferð, heilsuhagfræði, sálfélagslega líðan og félagslegar aðstæður og aðgengi að vinnumarkaði.

Reumaráðstefnurnar hafa verið haldnar frá árinu 1987 og hafa norrænu löndin skipst á um að halda þær með norræna gigtarráðið ( Nordic Rheuma Councel) sem samræmingaraðila, en gigtarfélögin í hverju landi fyrir sig bera alla ábyrgð á framkvæmd og fjármögnun þá ráðstefna er haldin í eigin landi.

Fyrirlestrar verða á skandinavisku (norsku, dönsku og sænsku) og ensku. Túlkað verður af skandinavísku yfir á ensku og öfugt yfir á skandinavískt mál.

Frekari upplýsingar eru á slóðinni:  www.reuma2007.com

Við bjóðum alla velkomna á Reuma 2007.