Félagsgjöld og fréttir af starfseminni
Rukkanir fyrir félagsgjöldum komnar í heimabanka félagsmanna
Nú er loksins komið að því að við sendum út greiðslukröfu í heimabankann vegna félagsgjalda, en af tæknilegum ástæðum urðu tafir á að hægt væri að senda þau út. Skrifstofa félagsins er lokuð vegna sumarleyfa til 12. ágúst, en spurningar eða ábendingar er hægt að senda á gigt@gigt.is Það eru bjartir tímar fram undan hjá félaginu og mikið að gerast. Síðasti vetur hefur farið í innrétta og flytja inn í glæsilegt húsnæði í Brekkuhúsum 1 í Reykjavík. Þar gerðum við miklar kröfur um að aðgengi og að félagsaðstaða væri til fyrirmyndar. Nýja húsnæðið gerir okkur kleyft að vera með mun öflugra félagsstarf til að ná að þjónusta félagsmenn betur, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Við erum með mjög fullkominn fjarfundarbúnað sem gerir okkur kleyft að vera með alla fræðslufundi og fundi hjá áhugahópum aðgengilega í gengum netið í gegnum fjarfundaforritið Teams. Þessar framkvæmdir hafa reynt mjög á félagið fjárhagslega, en til langs tíma litið var þetta mikilvæg breyting þar sem húsnæðið í Ármúlanum var barn síns tíma sem hamlaði félagsstarfinu og aðgengi mjög slæmt sem var alls ekki við hæfi fyrir starfsemi eins og okkar. Mikið af öflugu fólki hefur bæst í stjórn félagsins og er stefnt að mjög spennandi starfi á næstu mánuðum með fleiri fræðslufundum um gigtarsjúkdóma sem verða aðgengilegir á staðnum og í gegnum fjarfund og öflugra starfi jafningjastuðningshópa.