Starfsendurhæfing

Grein eftir Gunnar Kr. Guðmundsson endurhæfingarlækni sem birtist í Gigtinni, 1. tbl. 2002.

Starfsendurhæfingu er ætlað að brúa bilið milli læknisfræðilegrar endurhæfingar og vinnu, þegar þörf er á slíku. Læknisfræðileg endurhæfing hefur verið undir hatti heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis en þegar kemur að endurkomu til vinnu þá verður málið flóknara því það heyrir undir mörg ráðuneyti og marga aðila, sem lítið samstarf hefur verið á milli og engin vill borga eða telur þetta vera sitt mál. Með sífellt auknum fjölda örorkuþega er ljóst að sporna verður við þeirri þróun. Einungis þeir, sem nauðsynlega þurfa, fari á örorku. Áður en einstaklingur fer á örorku á hann að hafa fengið sanngjarna meðhöndlun og allar þær leiðir sem stuðla að aukinni vinnufærni reyndar. Starfsendurhæfing hlýtur að vera lykill í því sambandi.

Tilboð

Það hefur verið tilviljanakennt hvað hefur verið í boði fyrir hvern og einn einstakling og oft ekki markvisst tekið á málum. Það er ljóst að mikilvægt er að koma sem fyrst inn í myndina helst innan fárra mánaða frá því einstaklingur dettur út af vinnumarkaði. Ungir öryrkjar hafa verið hlutfallslega fleiri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum og því er enn mikilvægara að grípa inní. Tryggingastofnun ríkisins (TR) hafði af þessum sökum frumkvæði að átaki í starfsendurhæfingu.

Kerfið í dag

Þegar rætt er um starfsendurhæfingu langar mig til að fjalla aðeins um einfalda mynd af kerfinu og annmarkana sem ég sé á því og þannig grunninn að íhlutun TR í þessu sambandi. Í grófum dráttum þá skiptist kerfið í tvo ása, þ.e. fyrir fríska og síðan fyrir þá sem hafa örorku. Það hafa verið gerðir ýmsir góði hlutir í starfsendurhæfingu og starfsþjálfun, en þá þarf viðkomandi að hafa örorkuskírteini. Þessir tveir hópar hafa aðgang að mismunandi úrræðum og möguleikum þegar um vinnumál er að ræða. Hjá þeim sem lenda þarna á milli eru úrræði oftast fá.

Dæmi

Til að skýra þessa mynd frekar langar mig til að nefna nokkur dæmi. Ef einstaklingur verður atvinnulaus í fríska kerfinu. Þá getur m.a. tvennt gerst:

  1. Eftir ákveðinn tíma fær viðkomandi vinnutilboð, en treystir sér ekki í þá vinnu sem er í boði og þá er viðkomandi sagt að hann missi atvinnuleysisbæturnar nema hann komi með læknisvottorð. Einstaklingurinn kemur síðan með læknisvottorð þar sem búið er að setja nafn og númer á vandamálið. Eftir ákveðinn tíma oft mánuði þá er sagt "Heyrðu úr því þú ert svona veikur þá ættir þú að sækja um örorku" og reynt er að ýta viðkomandi yfir í þá leið.
  2. Ef atvinnuleysi hefur staðið lengi þá er vitað að það hefur áhrif andlega og líkamlega. Kvíði, dapurleiki og svefnleysi leiðir af sér að óþægindi sem eru fyrir og voru áður hluti af manni en höfðu ekki áhrif á áhuga eða getu til vinnu verða allt í einu aðalatriði. Leitað er til læknis og þessi lífskrísa fær nafn og númer og viðkomandi sér enga aðra leið í stöðunni en örorku. Allir þurfa jú framfærslu.

Hver bendir á annan

Þessi tvö kerfi reyna því að ýta einstaklingnum á milli sín. Kerfið fyrir fríska tjáir þér að þú sért veikur og ættir að nýta þér það kerfi og sjúkdómskerfið reynir að tjá þér að þú hafir ekki örorkuskírteini þannig að þú getur ekki nýtt þér úrræði þess. Ef hvorugt kerfið tekur við hefur einstaklingurinn þá einu leið að leita til félagsþjónustunnar.

Af hverju er þetta svona? Jú þetta eru ólík ráðuneyti og þar af leiðandi mismunandi vasi að borga úr og enginn vill taka á sig kostnaðinn. En væri ekki nær að horfa á þetta út frá einstaklingnum þannig að þessi kerfi reyndu að vinna saman því eitthvert þeirra verður á endanum að borga hvort sem er.

Samvinna

Það ætti að reyna að hjálpa einstaklingnum út frá getu hans og færni og kerfin eiga að vinna saman í þessu sambandi. Oft er örvun, hvatning, stuðningur, menntun, aðhald og umhyggja lykilorð í þessu sambandi. En ekki sjúkdómsleit, lokaðar dyr og höfnun.

Lítil aðstoð

Á milli þessara þessara ása sem ég hef dregið upp, sem auðvitað er einföldun, eru einstaklingar sem verða fyrir sjúkdómum, slysum og lífskrísum, sem ekki eru það alvarleg að valdi varanlegri örorku. Þeir eru þó ekki nógu frískir til að klára það starf sem er í boði. Þessir einstaklingar hafna síðan oft á milli þessara kerfa og fá litla aðstoð.

Sjúkdómsgerving

Það er eðlilegt að finna til inn á milli og einnig er eðlilegt að lundarfar okkar sveiflist miðað við aðstæður okkar hverju sinni. Við förum í gegnum lífskrísur, en við sættum okkur ekki við slíkt og förum til læknis og viljum fá nafn á þær og helst eina pillu, sem getur lagað ástandið þannig að við getum haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist. Við erum því stundum að sjúkdómsgera eðlilega hluti. Sjúkdómsgreiningin verður síðan aðgöngumiði að örorku og það verður allt of auðveld leið út úr þessari lífskrísu, en það er oft bjarnargreiði við einstaklinginn þegar til lengri tíma er litið.

Á vinnumarkaðinn

Það kemur ekki á óvart að rannsóknir sýna að þegar stutt er liðið frá því að einstaklingur datt af vinnumarkaði þá er hann móttækilegur fyrir því að fara aftur til vinnu. Eftir því sem lengra líður þeim mun minni líkur eru á því að hann komist á vinnumarkað á nýjan leik. Oft er besta endurhæfingin fólgin í því að aðstoða einstaklinginn við að komast til vinnu sem fyrst og með öllum ráðum, en ekki með sjúkdómsleit.

Hræðsla við að missa bætur

Það er einnig reynsla mín að í byrjun vilja flestir fara aftur út á vinnumarkaðinn, en þegar bótakerfið er komið í gang þá þorir fólk hreinlega ekki að reyna að brjótast út úr kerfinu. Það veit ekki hvaða möguleika það hefur og hefur jafnvel ekki gert sér grein fyrir því hvað það eiginlega getur, og síðast en ekki síst óttast það að missa bætur og að hafa þá enga framfærslu, þ.e. í sig og á.

Aðstoð áður en örorka er ákveðin

Það er mín skoðun að það sé skylda kerfisins og réttur einstaklingsins að fá hjálp við að skoða þá möguleika sem eru í stöðunni áður en örorka er ákveðin. Allt verður að reyna til að finna viðkomandi vinnu við hæfi miðað við þá færniskerðingu sem viðkomandi býr við þannig að enginn þurfi að verða öryrki að óþörfu. Fæstir vilja slíkt sérstaklega þegar fljótt er gripið inn í og áður en viðkomandi er búinn að sætta sig við það að geta ekki unnið því þá er oft erfitt að snúa til baka. Einnig er mikilvægt að hafa meiri samvinnu milli þessara kerfa, t.d. að atvinnuleit fyrir fríska og sjúka verði hjá sama aðila.

Endurhæfingarátak Tryggingastofnuna r

Með allt ofangreint í huga þá hrinti Tryggingastofnun úr vör endurhæfingarátaki sem er tilraun til að hafa áhrif á þetta ferli. Þetta er tilraunaverkefni og það fengust fjármunir til að koma því af stað. Myndað var matsteymi í Reykjavík, sem í eru endurhæfingarlæknir, félagsráðgjafi, sálfræðingur og sjúkraþjálfari og á Akureyri annað teymi með endurhæfingarlækni, iðjuþjálfa, félagsráðgjafa og sjúkraþjálfara. Allt eru þetta fagaðilar sem hafa mikla reynslu og þekkingu á þessu sviði og starfa á ýmsum stöðum í kerfinu. Gerðir voru þjónustusamningar við Hringsjá starfsþjálfun fatlaðra varðandi kennslu og ráðgjöf, við svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra vegna atvinnu með stuðningi og við Reykjalund varðandi atvinnulega endurhæfingu og nú síðast við Janus endurhæfingu, sem hefur starfað í tengslum við Iðnskólann í Reykjavík. Ég mun ekki fara nánar í þessi úrræði því fjallað verður um þau í öðrum greinum í þessu blaði.

Endurhæfingarmatsteymi

Hlutverk endurhæfingarmatsteymis er að kortleggja færniskerðingu einstaklinga sem vísað er til þess og þær endurhæfingarleiðir sem hafa verið reyndar. Meta endurhæfingarmöguleika og koma með tillögur. Þetta teymi er ekki hugsað sem meðferðaraðili eða dómari, en markmið þess er að vera til aðstoðar við endurhæfinguna og leiðbeina um frumskóg kerfisins.

Tilvísun

Allir læknar sem verða varir við að það stefni í óefni hjá skjólstæðingum, geta skrifað til tryggingayfirlæknis og beðið um endurhæfingarmat og þannig komið þessu ferli af stað. Tilvísun kemur í sumum tilvikum frá læknum TR í kjölfar umsóknar um örorkubætur eða endurhæfingarlífeyri.

Í samvinnu við Félagsvísindastofnun hefur verið gerð úttekt á árangri þeirra sem var vísað til teymisins. Niðurstöður eru mjög jákvæðar og sýna verulegan árangur og hafa þær birst í Læknablaðinu.

Lokaorð

Þegar maður kynnir sér stöðu starfsendurhæfingar í dag, þá kemur í ljós að það er ýmislegt jákvætt að gerast á ýmsum stöðum og það er mikill áhugi á þessari tegund endurhæfingar. En það skortir samstarf, samvinnu og yfirlit, þannig að margir séu ekki að gera það sama og annað verði útundan. Með hliðsjón af þeim einstaklingum sem hafa farið í gegnum matsteymið kemur í ljós að oft er þetta ungt fólk sem er í vanda, lítið menntað og oft með þunga félagslega byrði fyrir utan líkamleg einkenni. Þetta undirstrikar að málið er flókið og að kerfin þurfa að vinna saman ef árangur á að nást.


Ályktun á málþingi

Málþing var haldið 13. nóvember 2001 að frumkvæði meðferðaraðila með aðkomu ASÍ, Vinnumálastofnunar, Samstarfsráðs um endurhæfingu, Samtökum atvinnulífsins, Landssamtökum lífeyrissjóða og Tryggingastofnunar. Málþingið tókst mjög vel og sóttu um 300 manns þingið. Ályktað var á þessu þingi og skorað á heilbrigðis og tryggingamála-, félags- og menntamálaráðuneyti að skipa nefnd ofangreindra aðila ásamt aðila frá ráðuneytum til að finna samhljóm og samhæfingu á þessu sviði þ.e.a.s. starfsendurhæfingu. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti hefur sýnt þessu mikinn áhuga og við verðum að vera bjartsýn á framhaldið þannig að heildarskipulag komist á þessi mál í náinni framtíð, þar sem gengið er út frá þörfum einstaklingsins og kerfismúrar brotnir.