1. tölublað 2011

Í þessu tölublaði er mikið fjallað um hreyfingu og ber fyrsta grein blaðsins heitið „Hreyfing og streita. Þar skrifar Ingibjörg H. Jónsdóttir, aðstoðarprófessor við Institutet för Stressmedicin, Gautaborg í Svíþjóð, um streitu, áhrifa hennar á líkamann og hvernig hreyfing getur hjálpað til sem forvörn eða sem meðferð við streitu.

Jón Steinar Jónsson, heilsugæslulæknir, skrifar hér um fyrstu skref hreyfiseðilsins og hvaða ávinning hann geti skilað.

Greinin frá iðjuþjálfum GÍ, þeim Guðbjörgu og Sigurborgu, inniheldur að þessu sinni ýmis hagnýt ráð fyrir verðandi og nýbakaða foreldra. Hér er farið yfir hvernig foreldrar með gigt geti hagrætt hinum ýmsu hlutum og auðveldað sé ýmsar athafnir við umönnun ungbarns.

Hrefna Indriðadóttir, sjúkraþjálfari GÍ, skrifar um hreyfingu og mikilvægi þess að hafa í huga að enginn geti allt en allir geti eitthvað. Í greininni fer hún yfir algeng gigtareinkenni, hugmyndir um hreyfingu fyrir fólk með gigt og af hverju það er mikilvægt fyrir gigtarfólk að hreyfa sig.

Lífsreynslusögurnar eru tvær að þessu sinni. Annars vegar eftir Elsu Björk Harðardóttur en hún fjallar um sinn daglega veruleika með gigt. Hún fer yfir sitt líf, þegar hún var sem verst af gigtinni og fylgifiskum hennar og leið hennar að betri líðan. Hins vegar segir Þuríður Helgadóttir frá sínu lífi með gigt og hvernig hún tekst á við daglegt líf og hreyfingu sem hjálpar henni mikið. Yfirskrift greinarinnar hennar er „Minn líkami, mín ábyrgð“.

Að lokum skrifar Guðrún Sigurbjörnsdóttir, fótaaðgerðafræðingur greinina „Fætur í fyrirrúmi. Þar fjallar hún um alla umhirðu fóta sem og skóbúnað sem er æskilegur fyrir viðkvæma fætur.

Fróðleik um Gigtarfélagið, starfsmenn og starfsemi má finna í blaðinu sem og greinar frá áhugahópum félagsins. 

Smelltu hér til að skoða blaðið