Haustráðstefna Evrópskra gigtarfélaga (EULAR-PARE) 15. og 16. nóvember í Reykjavík

12. nóvember 2013

Nú í vikulokin, 15. og 16. nóvember,  verður haldin haustráðstefna Evrópskra gigtarfélaga (PARE) á Grand hótel við Sigtún. Félögin eru deild innan EULAR, sem stendur fyrir „The European League Against Rheumatism".

Sjúklingadeildin heldur árlega haust­ráðstefnu sem róterar milli þáttökulanda í Evrópu. Um er að ræða 130 manna lokaða ráðstefnu. Erlendir gestir verða um hundrað og koma þátttakendur frá 35 löndum. Þema ráðstefnunnar er „Heilbrigð á öllum aldri“ eða Healthy ageing.“

Markmið haustráðstefnunnar er að fræða, miðla reynslu og þekkingu sem og auka samvinnu félaganna. Þetta er í fyrsta sinn sem haustráðstefnan er haldin á Norðurlöndunum og er Gigtarfélagi Íslands mikill heiður að því.

Stór hluti ráðstefnunnar eru vinnustofur þar sem fjallað verður um eftirfarandi:  Stjórnmál og heilbrigðisþjónusta í Evrópu - Tækifæri til heilbrigðs lífernis - Vinnu með sjálfboðaliðum - Málefni ungs fólks - Bætt heilbrigði á öllum aldri - Stuðning við eldra fólk með gigtarsjúkdóma  og sjálfshjálp.

Við opnun ráðstefnunnar á föstudag kl. 9 munu flytja ávörp. Maurizio Cutolo formaður EULAR, Dóra Ingvadóttir formaður Gigtarfélags Íslands,  Frú Vigdís Finnbogadóttir forseti og Anna Lilja Gunnarsdóttir ráðuneytisstjóri í Velferðarráðuneyti. Að ávörpum loknum mun Prófessor Stefán Ólafsson halda fyrirlestur um „Norræna velferð og heilbrigði á öllum aldri.“

Markmið Gigtarfélags Íslands er:

  • að auka lífsgæði fólks með gigtarsjúkdóma og þeirra sem eiga á hættu að fá þá.
  • að berjast gegn gigtarsjúkdómum með því að stuðla að almennri umræðu um þá og áhrif þeirra á einstaklinga og samfélag.
  • að efla meðferð og endurhæfingu gigtsjúkra og að efla forvarnir, s.s. fræðslu, þjálfun og rannsóknir.