Alþjóðlegur gigtardagur er haldinn hátíðlegur í dag 12. október

12. október 2013

Alþjóðlegur gigtardagur er haldinn hátíðlegur í dag 12. október, en haldið hefur verið upp á hann árlega frá árinu 1997. Tilgangur dagsins er að vekja athygli á hagsmunamálum gigtarfólks og félög víða um heim stíla sérstaklega inn á að vera sýnileg þennan dag.  

Evrópusamtök gigtarfélaga (EULAR ) halda úti sérstakri heimasíðu um daginn www.worldarthritisday.org  Þó dagurinn sé hátíðlegur, þá er unnið að verkefnum í nafni hans allt árið. Kjörorð síðunnar er „Bætum lífið, eldumst betur“

Í dag hleypa samtökin af stokkunum skemmtilegri samkeppni sem stendur til 25. apríl á næsta ári og nefnist „Vision 2043“ eða „Draumsýn 2043.“ Tilgangurinn er að laða fram spennandi hugmyndir, nýjungar eða plön sem breytt geta lífi fólks með gigt og stoðkerfisvanda til hins betra. Fólk hefur mjög frjálsar hendur í því að skila hugmyndum inn og fyllilega ástæða til að kynna sér samkeppnina og taka þátt. Slóðin er www.worldarthritisday.org/vision2043

"Lifum betur, eldumst vel, hreyfing er fyrir alla"