Discoid lupus - Rauðir úlfar?

Spurning:

Hæ! Ég er með discoid lupus, greindur hjá húðsjúkdómalækni með sýnatöku. Ég er með bandvefsskemmdir í tárakirtlum, greindar hjá augnlækni og hef oft þurrk í augum, er ljósfælin, er einnig með þurrk í nefi (fæ oft sár) og munni og oft er eins og ég geti ekki kyngt t.d. bara munnvatni, það situr allt fast. Ég veit að ég er með eithvað slappan kyngingarvöðva, en afhverju veit ég ekki, en fékk þá staðfestingu út úr rannsókn sem ég fór í fyrir nokkrum árum, en það var ekkert gert meira í því. Ég hef oft mikla liðverki en liðirnir bólgna ekki, einnig vöðvaverki eða stundum greini ég alls ekki hvort er hvað. Eins er ég alltaf þreytt og orkulaus.

Ég var að hugsa hvort að ég gæti verið með einhvern annan sjúkdóm en bara lupusinn í húðinni eða getur þetta verið eingöngu af streitu?  

Vonast eftir svari sem fyrst. Kveðja

Svar:

Samkvæmt lýsingu á þínum einkennum væri ráðlegt að leita til gigtarsérfræðings. Einkennin gætu átt við að sjúkdómur þinn sé að þróast yfir í systemic lupus eða verið merki um sjúkdóminn heilkenni Sjögrens en það er bandvefssjúkdómur af ónæmisfræðilegum toga. Heilkenni Sjögrens einkennist fyrst og fremst af þurri slímhúð í augum, munni og loftvegum. Heilkenni Sjögrens getur fylgt öðrum gigtarsjúkdómum þar á meðal lupus. Vöðva- og liðverkir geta fylgt báðum sjúkdómunum og því nauðsynlegt að leita til gigtarsérfræðings til að fá skorið úr um hvað veldur þínum einkennum. 

Sjá nánari upplýsingar um lupus (Rauða Úlfa) í fyrirspurnum sem birst hafa á doktor.is.

Með kveðju, Gigtarlínan