Segðu já við því að segja nei

Grein þýdd úr Arthritis Today af Svölu Björgvinsdóttur sem birtist í Gigtinni, 1. tbl. 2004.

Síminn hringir. Góð vinkona er á línunni og eftir spjall í nokkrar mínútur kemur hún sér að erindinu. Félagsmiðstöðin þarf á hjálp að halda í sambandi við kökubasar. Þú vilt gjarna hjálpa, en þér fallast hendur bara við tilhugsunina um að þurfa að baka þessar kökur og að standa heilan eftirmiðdag. Ef þú gætir aðeins fundið leið til að segja Nei!

Dæmi úr daglega lífinu

Síminn hringir. Góð vinkona er á línunni og eftir spjall í nokkrar mínútur kemur hún sér að erindinu. Félagsmiðstöðin þarf á hjálp að halda í sambandi við kökubasar. Þú vilt gjarna hjálpa, en þér fallast hendur bara við tilhugsunina um að þurfa að baka þessar kökur og að standa heilan eftirmiðdag. Ef þú gætir aðeins fundið leið til að segja Nei!

Nei eða já

Við viljum svo gjarna hjálpa vinum okkar, fjölskyldu og vinnufélögum og þegar við erum beðin um að gera eitthvað er fyrsta hugsunin venjulega að segja já. En þegar okkur líður ekki sem best getur samþykki um að hjálpa -hvort heldur er að baka kökur eða taka að sér auka verkefni í vinnunni - valdið meiriháttar streitu.

Að segja nei getur verið mjög óþægilegt, segir Alice Domar, sálfræðingur í Boston sem hefur sérhæft sig í rannsóknum á streitu. En að segja „nei" við einhvern er að segja „já" fyrir þig sjálfa/n.

Eigin mörk

Þegar þú ert stöðugt að taka of mikið að þér, þá tekur þú áhættu á að fara yfir mörkin gagnvart eigin líkama og huga og þar með ýta undir langvinna streitu. Eins og það sé ekki nóg að vera með stöðuga þreytu og gigtarverki, án þess að bæta við streitu sem getur ýtt enn frekar undir þreytuna og leitt til aukinnar bólgu og virkni sjúkdómsins. Sömuleiðis getur langvinn streita tekið stærri og alvarlegri toll af heilsu þinni og leitt til hjartasjúkdóma, svefntruflana, höfuðverkjar, meltingartruflana og þunglyndis.

Að segja „nei" getur verið það besta sem þú gerir fyrir sjálfa/sjálfan þig. Reyndu að fylgja eftirfarandi leiðbeiningum þegar þér reynist erfitt að segja orðið nei.

Að segja nei

Leyfðu þér að finnast það vera í lagi að segja nei. Bara að vita af því að að þú getir sagt nei og að það sé ásættanlegt svar getur stundum verið stórt skref í átt til sjálfseflingar.

Skildu muninn á milli sjálfselsku og sjálfsumönnunar. Þegar þú segir nei vegna þess það myndi það valda þér óþægindum eða verkjum ef þú segðir já, þá ertu ekki sjálfselsk/ur - þú ert að standa vörð um þína eigin heilsu. Domar segir: Veikindi sem takmarka getu þína krefjast þess að þú hugsir um sjálfa/nn þig og lærir hvar þín takmörk eru.

Góð tímabil

Vertu á verði þegar þér líður betur því þá er hætta á að þú haldir að þú ráðir við allt. Það getur skipt máli á hvaða tíma dagsins þú ert beðin/n að um gera eitthvað og hvaða ákvörðun þú tekur í framhaldi af því. Mörgum einstaklingum hættir til að segja já ef þeir eru beðnir um eitthvað á þeim tíma dagsins sem þeim líður best og sjá svo eftir því seinna þegar orkan er orðin minni. Það geta komið þær stundir að maður er svo hress að manni finnst allt hægt og þá gildir það að vera vel á verði.

Að segja já

Vertu samt ekki hrædd/ur við að segja já. Rannsóknir sýna að fólk sem gefur af sjálfu sér, er örlátt gagnvart öðrum og er tilbúið að fórna sér fyrir vini og fjölskyldu aðlagast betur og er hamingjusamara, en það sem ekki gerir það. Leyndardómurinn felst í því að vita hver takmörk þín eru og taka klókar ákvarðanir út frá eigin getu þegar kemur að því að segja já - eða - nei.

Þýtt af Svölu Björgvinsdóttur, verkefnastjóra fræðslu, úr tímaritinu Arthritis Today, nóvember-desember 2003.