Hristi af sér gigt á mettíma

Viðtal Guðrúnar Guðlaugsdóttur við Björgvin Pál Gústafsson.


Við Björgvin Páll Gústafsson markmaður hjá SC Magdeburg í Þýskalandi hittumst í Lifandi markaði laugardaginn áður en hann lék með íslenska landsliðinu á móti Slóveníu, þar sem íslenska liðið tryggði sér þáttöku í næsta Evrópumóti árið 2014 í Danmörku. En í september sl. var Björgvin fárveikur af gigtsjúkdómi og næsta ótrúlegt þá að hann stæði í marki á næstunni.

„Ég fékk svokallaða fylgigigt í kjölfar samonellusýkingar, en hana náði ég mér í á einhverjum veitingastað í Magdeburg í Þýskalandi þar sem ég er búsettur,“ segir Björgvin þegar ég spyr hann hverskonar gigtsjúkdómur hafi herjað á hann í september sl. „Ég tel líklegt að ég hafi fengið sýkinguna úr hrærðum eggjum sem ég borðaði þarna með svo afdrifadríkum afleiðingum. Ég var greindur 28. september og kominn í fullt fjör 10 vikum seinna sem að er ótrúlegt miðað við það ástand sem að ég var í,“ bætir hann við.

Þegar ég spyr hvort hann hann sé hættur að borða slíka fæðu brosir hann og svarar: „Ég þarf að borða næringarríkan mat, ekki minna en 4000 til 5000 hitaeiningar á dag. Ég æfi stíft og brenni því miklu. En nú skoða ég mjög vel það sem ég borða, enn betur en áður og sæki mikið í heilsufæði. Mataræði hefur held ég allt að segja og gríðarlega mikilvægt að hugsa um það í svona ferli,“ segir Björgvin.

Við sitjum einmitt við borð í kaffihluta heilsufæðisverslunar. Það er raunar hreint ekki á Björgvini að sjá að hann hafi nýverið átt við afskaplega erfið veikindi að stríða. En hann er líka ungur, fæddur 27. maí 1985 en á þó að baki glæstan feril í handboltanum, lék meðal annars með íslenska landsliðinu þegar það vann silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og þegar það vann bronsverðlaun á Evrópumótinu í Austurríki 2010. Áður en Björgvin réði sig til Þýskalands lék hann með Fram og þar áður með HK, enda ólst hann upp í Kópavogi. „Ég fæddist raunar á Hvammstanga. Foreldrar mínir eru Linda Björg Finnbogadóttir og Gústav Jakob Daníelsson, við fluttum fljótlega í Kópavoginn og þar gekk ég í skóla og hóf handboltaleik,“ segir Björgvin.

En hafði hann verið heilsugóður áður en hann fékk salmonellusýkinguna?

„Já hafði verið mjög heilsuhraustur og sjaldan veikur og varla misst úr leik  í handboltanum fyrr en að ég lenti í þessu.  Fylgigtin er í rauninni mjög sjaldgæf gigt, sem að mér skilst að maður geti einungis fengið í kjölfar matareitrunar og einungis í kringum 1-2 % þeirra sem að fá matareitrun geta átt það á hættu að fá þessa tegund gigtar. Ég vona að ég fái þetta aldrei aftur, þetta er mjög sársaukafullur sjúkdómur.  Ég svaf lítið í 4 vikur og verkjaði allar nætur. Þetta var gríðarlega erfitt en þá kom keppnisskapið upp í manni. Það kom aldrei til greina nein vælhugsun heldur bara að ég ætlaði mér að hrista þennan djöful af mér á mettíma.“

Gigtareinkennin

Hvernig byrjuðu gigtareinkennin?

„Ég fann í byrjun örlítið fyrir verkjum í baki sem að ég taldi nú í fyrstu að væru bara verkir sem að tengdust því að ég væri með lélegt bak en hef aðeins átt í vandræðum með bakið á mér í gegnum tíðina, en ég var þá staddur á á hóteli með liðinu mínu SC Magdeburg. Við áttum að spila leik gegn THW Kiel daginn eftir. Þegar ég vaknaði svo daginn eftir, á leikdegi og ætlaði að stíga í fótinn fékk ég þennan líka gríðarlega verk og sá að ökklinn á mér er stökkbólginn. Þá grunaði mig að ekki væri allt með feldu þar sem að ég hafði fram að því aldrei verið í vandræðum með ökklann og fannst nú ólíklegt að ég hefði gengið í svefni og snúið mig svona illa á ökklanum.

Ég reyndi nú samt að spila leikinn um kvöldið og beit á jaxlinn en það gekk bara í nokkra klukkutíma þar sem að fljótlega fóru verkirnar að aukast til muna og fór ég að finna fyrir verkjum í báðum hnjám líka og annarri stóru tánni. Þá hófust miklar rannsóknir á mér og eftir að tekin höfðu verið 3 saursýni og 12 blóðprufur og gerð höfðu verið ýmsar rannsóknir og skoðanir hjá sex mismunandi læknum þá kom greiningin - fylgigigt. Segja má að notast hafi verið hreinlega við útilokunaraðferðina við þessa greiningu.“

Hvaða ráðum var beitt

Hvað gerðir þú til þess að fá hjálp við gigtinni, hvaða ráðum var beitt?

„Ég fékk pensilín til að losna við salmonellusýkinguna og var settur á Prednisolon stera og Sulfazalasin. Ég er kominn nánast af öllu núna, tek bara Sulfasalain og verð á því fram á sumar til öryggis. Að öðru leyti gerði ég nákvæmlega allt sem ég mögulega gat hversu gáfulegar eða vitlausar sem ég taldi aðferðirnar vera meðan ég var sem veikastur. Ég vildi gera allt til að ná mér á sem sneggstan hátt -enda var HM í handbolta þá eftir rúma 2 mánuði og ætlaði ég ekki að missa af því.

Ég fékk gríðarlega mikla hjálp frá fullt af fólki sem að hafði samband við mig og vildi allt fyrir mig gera og aðstoða mig í þessum erfiðu veikindum. Dæmi um það sem að ég gerði var að ég byrjaði að borða gel frá fyrirtækinu Berry, sem inniheldur brúnþörunga og fleira sem að á að hjálpa við gigt, brjóskeyðingu meðal annars. Ég drakk 2 glös af Túrmerik/engifer frá My secret á dag og svo drakk ég um 800-1000 ml. aukalega af vatni á dag. Ég borðaði einungis bráðhollan mat á stöðum einsog við Lifandi markaði, drakk nokkra dropa af heilögu vatni, gekk um með Balance-band allan daginn, fór í 2 tíma á dag í sogaæðanudd og fékk straum á hnén og gerði mikið af léttum styrktaræfingum. Þá prófaði ég Moxa Theraby sem að er kínversk læknisaðferð þar sem að heit reykelsi voru sett á hnén á mér.

Ég bar einnig þýskt skyr (Quark) á hnén á mér tvisvar sinnum á kvöldi og kældi hnén á mér með kælipoka. Svo bar ég Orthogel og bólgueyðandi krem á mig, lét tappa vökva á hnjánum á mér, sem var afar sárt en virkaði lítið. Vökvinn var kominn aftur eftir nokkra klukkutíma. Líka var ég látinn æfa í -110° frystiklefa í 3 mín á dag, gekk þar inni í hringi og var sprautaður með bólgueyðandi sterum í hnén og þannig mætti telja,“ segir Björgvin. Hann er greinilega einbeittur maður sem lætur sér fátt fyrir brjósti brenna, enda skiptu þessi veikindi miklu máli í sambandi við starf hans – eða hvað?

„Jú, öllu máli. Ég var auðvitað ekki vinnufær þennan tíma og gat ekki hreyft mig. Ég var rúmliggjandi í um 6 vikur og mikið vesen og átök voru að koma mér upp úr rúmminu og drösla mér inn í stofu. Ég var á hækjum í smá tíma og algerlega bjargarlaus. Ef að ég hefði ekki haft yndislegu konuna mína, Karen Einarsdóttur mér við hlið þá hefði ég þurft að liggja inná spítala þar sem ég var alveg hjálparlaus. Hún sá líka til þess að ég myndi halda geðheilsunni með því að vera eins jákvæð og skemmtileg og hún er. Án hennar hefði þetta ekki gengið upp. Svo er barnatrúin rík í mér og það hjálpaði klárlega allt í þessu ferli. Ég er jákvæður og trúaðar og sú hugurinn fleytir manni jú hálfa leið í svona baráttu.“

Hjálpin frá Íslandi mikilvæg

Hvaða læknar sinntu þér?

„Læknateymið hjá mér í Magdeburg sá um mesta meðhöndlunina en hjálpin frá Íslandi var mikilvægari, ef eitthvað er. Ég var í miklu sambandi við Árna Jón Geirsson gigtarlækni og á honum mikið að þakka ásamt öllu HSÍ teyminu sem að samanstendur af sjúkraþjálfurunum Pétri Erni Gunnarssyni og Elís Þór Rafnsyni, læknunum Brynjólfi Jónssyni og Örnólfi Valdimarsyni og nuddaranum Ingibjörgu Ragnarsdóttur, en þau sáu um mig þegar ég var á Íslandi.

Er gigt í ætt þinni?

„Amma mín hefur aðeins verið að berjast við gigt en ekki á slæmu stigi samt,“ svarar Björgvin.

Hvernig tóku félagar þínir þessum veikindum?

„Þeir studdu mig auðvitað fram í rauðan dauðann og gáfu mér orku í gegnum orð.

Hvernig líður þér núna?

„Mér líður eins og nýjum og finn ekkert fyrir þessu. Ég þarf hinsvegar að vera vakandi fyrir því ef ég fæ aftur matareitrun að fylgjast með eftirköstunum - mér skilst að líkurnar á því að ég fái þetta aftur séu meiri í framtíðinni en ella hefði verið. Þá er mikilvægt að bregðast strax við.“

Lítur þú öðrum augum á tilveruna eftir veikindin?

„Já að vissu leyti geri ég það. Maður tók heilsunni sem sjálfsögðum hlut en það geri ég ekki lengur.“

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir.

Birt í Gigtinni 1. tbl. 2013