Bitur sannindi um sætindi

Sykur er mikilvægur þáttur í lífsstíl okkar og í því sem næst hverri einustu máltíð dagsins neytum við matar og drykkjar með sykri. Við verðum því að vera betur vakandi fyrir því hvað við látum ofan í okkur af fæðu ýmist með sykri eða gervisykri. 

Sykur af ýmsu tagi er náttúrulegur hluti matvæla. Ávextir innihalda til dæmis ávaxtasykur (frúktósa) og þrúgusykur (glúkósa) og í mjólk er að finna mjólkursykur (laktósa). Hreinsaður sykur og margar aðrar sykurtegundir eru svo settar út í drykkjarvörur og matvæli af öllu tagi. Þess vegna tölum við um viðbættan sykur, öfugt við þann náttúrulega.

Engin þörf fyrir viðbættan sykur

Líkaminn er fær um að búa til úr fitu og matvælum allan þann sykur  sem hann hefur þörf fyrir. Sykur sem við getum nýtt okkur er að finna í öllum matvælum með kolvetnum, hvort sem er beinlínis (glúkósa úr sterkju og öðru) eða óbeinlínis (ávaxtasykur og aðrar sykurtegundir sem líkaminn breytir í glúkósa). Það er engin þörf fyrir viðbættan sykur í matvörum. Hins vegar er skynsamlegt að afla þess sykurs sem líkaminn þarfnast í takmörkuðum mæli úr kolvetnum á borð við brauð, pasta, grænmeti og ávexti.

Sykurneyslan eykst

Sykurneyslan hefur meðal annars aukist vegna þess hvernig hún á sér stað. Notkun hreins sykurs hefur því sem næst dregist saman um helming síðustu hálfa öldina en hins vegar hefur orðið bylting í framleiðslu matvæla með viðbættum sykri. Nóg er að nefna gosdrykki og súkkulaði. 
Það ber ekki öllum saman um hve mikils sykurs fólk megi neyta en ekki ætti að mæta nema að hámarki 10% orkuþarfar líkamans með sykri, þar með talinn strásykur, sykurmolar og viðbættur sykur í matvælum, gosdrykkjum, safa, sultum, kökum, mjólkurvörum og öðrum sykruðum mat sem við neytum. Hér er hvorki reiknað með náttúrulegrum sykri í ávöxtum og grænmeti né náttúrulegrum mjólkursykri. Það ræðst af aldri, kyni og virkni hve mikils viðbætts sykurs má neyta en 50-60 grömm á dag eru eðlilegt viðmið, fyrir fullvaxta karla allt að 70 grömm.

Sykur

Sykur er unnin úr jurtum, einkum sykurreyr og sykurrófum. Pressaður sykurreyr gefur af sér sykursafa sem hrásykur er unnin úr. Hrásykurinn er svo hreinsaður og fínunninn í ýmsar vörur, svo sem strásykur, sykurmola og kandís.

Frúktósi

Frúktósi er um helmingur venjulegs sykurs. Sumir álíta að hreinn frúktósi sé hollari en strásykur því sá fyrrnefndi er sætari og brotnar niður á annan hátt. Nýjar rannsóknir benda þó til þess að svo sé ekki, að frúktósi geti þvert á móti haft ýmsar skaðlegar afleiðingar á til dæmis lifur, hindrað næringarfrásog þarma, orsakað verri blóðsykurstjórnun og hækkað blóðfitu (kólesteról). Hér er þó nauðsynlegt að gera greinarmun á matvælum með náttúrulegum frúktósa, t.d. ávöxtum og grænmeti, sem auk þess eru trefjarík. Sú fæða veldur ekki sama tjóni á þörmum og sérframleiddur frúktósi.

Sykur og offita

Of mikil fita er í mataræði bæði ungs fólks og fullorðinna, einkum mettuð fita, ásamt salti og sykri. Þjóðin er stöðugt að fitna og þyngjast að meðaltali og mjög feitt og of þungt fólk á á hættu að þróa með sér ýmsa þráláta sjúkdóma á borð við sykursýki af tegund 2, hjarta og æðasjúkdóma, háþrýsting, gigtarbólgur og ákveðin krabbamein.

 Vandamál tengd offitu eiga drjúgan þátt í kostnaði iðnríkjanna við heilbrigðiskerfi sín. Um fimmta hvert barn á aldrinum 8-12 ára er offeitt. Karlar á aldrinum 40-45 ára eru að meðaltali um 5 kg og konur nær 6 kg þyngri nú en fyrir 15 árum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) telur offitu eitt alvarlegasta heilbrigðisvandamál heims. Stofnunin áætlar að 300 milljónir manna séu of þungir eða offeitir og talan fer hækkandi. WHO áætlar líka að um 10-15% tapaðra lífára í Evrópu megi rekja til rangrar næringar.

Þjálfun er mikilvæg

Þjálfun brennir ekki bara hitaeiningum heldur leiðir til bættrar stjórnar líkamans á blóðsykrinum. Þjálfun dregur úr spennu og streitu (sem líka veldur offitu). Þjálfun styrkir og stækkar hjartað þannig að áreynsla þess við að dæla blóði minnkar. Því lækkar blóðþrýstingur og púls, jafnt í vinnu sem í hvíld. Slæma blóðfitan minnkar en sú góða eykst.  Líkaminn framleiðir endorfín við þjálfun. Endorfínið er „gleðihormón” líkamans og færir okkur vellíðunartilfinningu að þjálfun lokinni.

Ráð til að draga úr sykurneyslu:

  • Borðaðu kolvetni með trefjum
  • Burt með sælgæti og kökur úr skápunum
  • Útbúðu hollt nesti
  • Notaðu meira salat og grænt grænmeti
  • Svalaðu þorstanum með vatni

Greinin er eftir Veru Agnarsdatter og byggist á ýmsum heimildum á Netinu.
Úr Revmatikeren 5:10

Birtist í Gigtinni, 2. tbl. 2010