Ráðleggingar fyrir ferðlög með flugi

Hvort sem þú ert með slæman gigtarsjúkdóm eða bara finnur fyrir eymslum í líkamanum þá er gott að hugsa fyrirbyggjandi í sambandi við ferðalög. Það getur bara orðið til þess að bæta ferðina. Hér fyrir neðan hef ég tekið saman ábendingar af dönsku heimasíðunni og bætt við öðrum sem gott getur verið að huga að fyrir ferðina. 

Áður en lagt er af stað 

Þegar þú bókar flugfar skalt þú láta vita ef þú átt erfitt með gang að þú viljir gjarnan hafa hafa gott pláss fyrir fæturna í fluginu eða að þú hafir þörf fyrir hjálp í flugstöðinni, t.d. ef það er langt frá innritunarborði að útgönguhliði. Á áfangastað getur einnig verið um langa leið að ræða frá borði flugvélar og í gegnum flugstöðina. Fáðu upplýsingar þar um til að geta gert ráðstafanir fyrirfram ef þörf krefur. 

Það er mikilvægt að þú setjir þarfir þínar eins skýrt fram og hægt er. Með því stuðlar þú að því að ferðaskrifstofan/flugfélagið geti gefið þér bestu mögulega þjónustu og að ferðin verði áfallalaus. 

Ef þú ætlar að bóka pakkaferð með hóteli og flugi saman, upplýstu þá ferðaskrifstofuna ef þú hefur sérþarfir eða þarft á einhverri séraðstoð að halda.  

Einnig er góð hugmynd að vera með læknisvottorð á ensku sem útskýrir að þú sért með gigtarsjúkdóm og að þar komi einnig fram hvaða lyf þú hefur meðferðis til nauðsynlegrar inntöku meðan á ferðalaginu stendur. Ef verið er með lyf í sprautuformi þarf alltaf að vera með læknisvottorð meðferðis. Spyrðu lækninn þinn eða lyfjafræðinginn í apótekinu ef þú ert óörugg/ur. Gott er að hafa lyf og sjúkragögn í handfarangri.    

Einstaklingar með gerviliði í mjöðmum eða hnjám lenda stundum í því að vera stöðvaðir vegna píps þegar farið er í gegnum vopnaleitarhlið. Þar getur læknisvottorð á ensku, sem staðfestir að viðkomandi sé með gervilið, komið í veg fyrir misskilning og það að þurfa stöðugt að útskýra mál sín. 

Ef þú ert á leið til Evrópu þá þarft þú að hafa evrópska sjúkratryggingakortið meðferðis. Kortið gildir aðeins í 2 ár og þarf því að sækja um það reglulega. Kortið fær maður hjá Tryggingastofnun ríkisins (TR). Hægt er að fylla út umsókn á heimasíðu TR eða hringja þangað og biðja um að fá kortið sent. Kortið staðfestir rétt þinn til heilbrigðisþjónustu. Með heilbrigðisþjónustu er átt við aðstoð sem telst nauðsynleg af læknisfræðilegum ástæðum meðan á tímabundinni dvöl stendur í öllum ríkjum EES og Sviss. Með kortinu greiðir þú sama gjald fyrir þjónustuna og þeir sem eru tryggðir í viðkomandi landi. Nánari upplýsingar um gildi kortsins er að finna á baksíðu kortsins og á heimasíðu TR.

Ef þú ert á leið til landa utan EES þá er hægt að sækja um sérstaka tryggingayfirlýsingu hjá TR. Ef þú þarft nauðsynlega á aðstoð að halda þegar á ferðalaginu stendur geturðu átt rétt á að fá hluta sjúkrakostnaðar endurgreiddan hjá TR þegar heim kemur. Nauðsynlegt er að framvísa frumritum af sundurliðuðum reikningum og greiðslukvittunum. 

Flugferðin 

Árið 2008 gengur í gildi EES-reglugerð sem tryggir einstaklingum með fötlun sömu möguleika á að ferðast með flugi og öðrum. Frá næsta ári átt þú þess vegna rétt á séraðstoð frá því þú kemur í brottfararsal þar til þú ert komin/n út úr komusal. Aðstoðin á að vera án aukakostnaðar og það á einnig að vera hægt að hafa með sér hjálpartæki án aukakostnaðar. Mörg flugfélög uppfylla nú þegar þessi skilyrði. Aflaðu þér endilega upplýsinga um hvaða reglur gilda hjá þínu flugfélagi. 

Í flugi ættirðu að vera í rúmgóðum og þægilegum fatnaði sem og skóm. Það getur jafnvel verið gott að hafa inniskóna með og skipta yfir í þá þegar farið er af stað. Einnig getur verið gott að vera í flugsokkum sem fást m.a. í apótekum. 

Ef þú ert slæm/ur í hálsliðum getur reynst vel að vera með uppblásinn hálskraga til að styðja við höfuðið meðan á ferð stendur.  

Mundu einnig eftir að í löngu flugi er mikilvægt að hreyfa alla liði með jöfnu millibili til að koma blóðinu á hreyfingu. Mörg flugfélög eru með æfingaráætlun sem þú getur fengið aðgang að og svo er hægt að ganga reglulega fram og tilbaka eftir ganginum í flugvélinni. 

Ef þú ert viðkvæm/ur í öndunarfærum eða með munnþurrk er nauðsynlegt að vera með vökva við höndina.  Um augnþurrk gildir að spara ekki gervitárin.  

Hótelið 

Mörg hótel eru með upplýsingar á heimasíðum sínum um hvernig aðgengi sé á hótelinu og jafnvel er þar einnig að finna sérstök aðgengismerki. Það þýðir þó ekki nauðsynlega að auðvelt sé að komast um allt. Eitt er aðgengi á hótelinu sjálfu og annað er aðgengi fyrir utan hótelið og í næsta nágrenni þess. Þessvegna getur verið góð hugmynd að hafa samband við hótelið áður en lagt er af stað. Gjarna með bréfi eða netpósti, því þannig er auðveldara að koma í veg fyrir að það verði einhver misskilningur.

Ef þú ert með gigt í höndum, gætir þú viljað fá upplýsingar um hvort hurðir séu þungar, hvort sé auðvelt að nota vatnskrana og sturta niður í klósetti. Ef þú þarft á að halda rúmi sem er hærra en venjulegt rúm, að herbergið sé nálægt lyftunni, auka kodda eða öðru, sjáðu þá um að panta það fyrirfram. Því meiri upplýsingar sem þú lætur hótelinu í té því meiri líkur eru á að þér líði vel og að þú eigir góðan tíma á hótelinu.

Önnur ráð

  • Innritun í flug. Kannaðu hvenær byrjað er að innrita farþega fyrir þitt flug og mættu um leið og innritun byrjar til að sleppa við að þurfa að standa í langri biðröð.
  • Vertu með ferðatösku á hjólum. Notaðu ferðatösku með góðum hjólum sem auðvelt er að draga. Ef verið er að kaupa nýja ferðatösku er mikilvægt að prófa sig áfram með hvernig tösku er auðveldast að draga. Sumum finnst t.d. auðveldara að vera með ferðatöskur á fjórum hjólum sem maður rennir áfram við hlið sér en þær sem þarf að draga á eftir sér.
  • Hjólastólaþjónusta á flugvellinum í Keflavík. Þessi þjónusta er veitt farþegum sem eiga í erfiðleikum að komast um borð eða frá borði flugvélar og hreyfa sig í farþegarými. Það þarf að hafa samband við viðkomandi flugfélag eða ferðaskrifstofur til að fá hjólastólaþjónustu. 
  • Ferðastu með bakpoka. Ekki hafa of mikinn farangur með þér að heiman. Ef þú ert að fara í ferð þar sem þú þarft að halda á farangrinum mikinn hluta tímans, skaltu frekar kaupa hlutina um leið og þú þarft á þeim að halda í ferðinni.Og fáðu ferðafélagana til að bera það þyngsta fyrir þig.
  • Vertu meðvituð/meðvitaður um kuldann í hitanum. Í löndum með mikinn lofthita er algengt að almennir staðir s.s. söfn, verslanir og veitingahús séu með loftkælingu á fullum styrk. Þessvegna getur þú upplifað snögga hitabreytingu bæði þegar þú kemur inn úr hitanum og sömuleiðis þegar þú ferð út. Ef þú ert mikið á stöðum með loftkælingu, reyndu þá að undirbúa þig undir það með því að vera með hlý föt með þér í bakpokanum. 
  • Taktu hjólastól með. Þér finnst þú kannski þurfa að nota meira af lyfjum eða öðrum hjálpartækjum en þegar þú ert heima. Ef þú vilt fara í ferðalag sem krefst mikillar hreyfingar þá er pirrandi að geta ekki verið með allan tímann og þurfa kannski að hvíla sig annan hvern dag vegna verkja eða þreytu. Þá getur hjólastóll verið góð hugmynd, þó svo að þú þurfir ekki á honum að halda dags daglega. Hreyfihamlaðir flugfarþegar mega hafa hjólastól með sér til viðbótar við farangursheimildina, en hann verður að fara með innrituðum farangri og þarf að láta flugfélagið/ferðaskrifstofuna vita fyrirfram að farið verði með eigin hjólastól. Einnig er hægt að athuga hvort hægt sé að leigja hjólastól á áfangastað. 
  • Taktu stól með. Hægt er að fá samfelldan stól í íþróttaverslunum eða þeim verslunum sem veiðimenn nota. Auðvelt er að hafa hann á bakinu og þá er alltaf stóll til staðar þegar þú þarft að hvíla þig eða að setjast skyndilega niður.
  • Innritunarfarangur.Þegar þú pakkar niður fyrir ferðalag ættirðu að hafa í huga að snyrtitöskum, tannkremi, hárvörum, ilmvatnsglösum, kremi, rakspíra, svitalyktareyði, sápum, raksápu og öðrum sambærilegum hlutum er best fyrir komið í innrituðum farangri. Einnig er bannað að hafa vökva í handfarangri. Með vökva er átt við allan vökva, gel, krem, smyrsl, úðaefni o.s.frv. hvort sem er í flöskum, þrýstibrúsum, túpum eða öðrum umbúðum. Sömuleiðis er bannað að hafa í handfarangri hluti eins og skæri, naglaþjalir og vasahnífa.Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar:  www.flugstod.is  og á heimasíðu Flugmálastjórnar Íslands:  www.caa.is .


Svala Björgvinsdóttir, verkefnastjóri fræðslu GÍ skrifaði greinina og studdist við grein á heimasíðu Danska Gigtarfélagsins „Råd til rejsen“. Fríðu Á Sigurðardóttur íslenskufræðingi er þakkaður yfirlestur og góðar ábendingar.