Stórhreingerningar

Á árum áður þegar konan var í meira mæli heimavinnandi var það nánast algild regla að gera stórhreingerningar bæði fyrir jól og svo aftur að vori. Flest okkar sem erum fullorðin í dag munum eftir því þegar heimilið var þrifið hátt og lágt s.s. veggir, loft, gluggar, skápar, gardínur, húsgögn og myndir. Í því samfélagi sem við lifum í í dag eru flestar konur útivinnandi og hafa lítinn tíma aflögu til að sinna stórhreingerningum á sama hátt og hér áður fyrr. Engu að síður gera margar konur þær kröfur til sín að þær verði gera stórhreingerningar bæði fyrir jól og að vori. Hvað varðar gigtarfólk þá getur sú krafa valdið miklu álagi.

Af hverju ættum við að gera stórhreingerningar fyrir jólin? Í skammdeginu viljum við gjarna hafa hlýlegt í kringum okkur og kveikjum iðulega á kertum og á það sérstaklega við í kringum jól og áramót. Af kertum getur skapast sót sem leggst á veggi og gardínur þannig að þegar komið er fram í janúar og jólatíminn búinn eru áhrif stórhreingerningarinnar einnig búin og aftur orðin þörf á að þrífa. Ég mæli því með venjulegri helgarhreingerningu fyrir jólin og að geyma stórhreingerningar til betri tíma.  

Ef maður vill sjálfur gera hreint þá eru ýmis liðvæn ráð sem geta auðveldað manni og hjálpað að setja sér mörk þegar verið er að þrífa. 

  • Forgangsraðaðu. Taktu ákvörðun um hvaða þrif sé gott að gera á vorin og svo hvaða verk henti öðrum árstímum. 
  • Skipuleggðu hvernig þú ræðst til atlögu við þrifin  Gerðu verkin í ákveðinni röð. Sum verk er betra að gera að morgni, önnur er best að geyma þar til síðar. Einnig getur verið gott að skoða á hvaða tíma dagsins líðanin er best og gera það sem er erfitt þá. Gott er að skipta oft um vinnustöðu til að deila álaginu sem jafnast á líkamann. 
  • Gerðu ekki allt í einu . Þú getur deilt einu verkefni yfir á fleiri daga eða vikur, ef það reynist nauðsynlegt. Ef t.d. er verið að gera hreina veggi er hægt að byrja á einum vegg í einu og láta það nægja fyrir daginn. Ef það reynist of mikið þá er að taka bara hluta veggjarins þegar haldið er áfram. Þetta getur krafist þolinmæði en það er þess virði að ofgera sér ekki. 
  • Hvíldu þig reglulega. Skipuleggðu hvíldarhlé með 15, 30 eða 60 mínútna millibili til að viðhalda orkunni. Að neyða sig áfram getur orðið til þess að þú getir fyrr strikað yfir eitt verkefni á listanum þínum, en oftar en ekki þýðir það verri líðan. Notaðu klukku og láttu hana hringja eftir vissan tíma til að minna þig á að stoppa og taka hlé eða hætta eftir því hvað við á. 
  • Vertu með hlutina á þér eða hjá þér. Til að koma í veg fyrir ferðir fram og tilbaka til að ná í hreingerningarvörurnar og annað sem notað er við þrifin er hægt að vera með svuntu með vösum framan á fyrir brúsa, svampa og tuskur. Ekki setja það mikið í vasana að svuntan verði of þung því það veldur álagi á bak og axlir. Eða reyndu að nota lítið borð á hjólum til að færa hreingerningarvörurnar á milli herbergja. Enn önnur leið er vera með hreingerningarvörurnar og áhöld á nokkrum völdum stöðum á heimilinu, eins og í baðherbergi, eldhúsi og þvottahúsi. Búi maður á tveimur hæðum þarf að hafa þessa hluti á báðum hæðum. 
  • Veldu réttu áhöldin. Notaðu liðvæn áhöld eins og fægiskúffu með löngu og breiðu handfangi. Veldu áhöld sem eru létt, með löngu og breiðu skafti og hentug við það verk sem þú ert að fara að gera. Reyndu að sitja við verkin ef hægt er. Hár stóll með fótaskemli gefur þér möguleika á að sitja við sum verkefni, eins og t.d. að pússa silfur og þurrka af smáhlutum. 
  • Verndaðu liðina. Forðastu mikið álag á liðina, haltu t.d ekki utan um klútinn þegar þú þrífur. Hafðu hendina heldur flata ef þú getur þegar þú strýkur af eða notaðu afþurrkunarhanska, því þá er minna álag á liðina í hendinni. Notaðu stóran svamp þegar þú ert að þvo með vatni þannig að þú getir auðveldlega kreist vatnið úr honum, í stað þess að vinda tusku. Hafðu þurran klút við höndina til að geta þurrkað betur ef þörf krefur. Einnig getur verið gott að hafa hreingerningar-/skúringarfötuna uppi á borði eða á stól, svo þú þurfir ekki að beygja þig. Og nota létta og stöðuga tröppu ef þörf krefur, í stað þess að teygja sig, t.d. til að ná upp á skápa og efstu hluta glugga.

 

Svala Björgvinsdóttir, verkefnastjóri fræðslu GÍ, skrifaði greinina sem byggist á grein úr Arthritis Today, March-April 2005 „Spring into cleaning“ eftir Rosanna Scott. Guðbjörgu Guðmundsdóttur iðjuþjálfa og Fríðu Á. Sigurðardóttur íslenskufræðingi eru færðar þakkir yfir yfirlestur og góðar ábendingar.