Vefjagigt og leiðir til að takast á við hana

Svala Björgvinsdóttir verkefnastjóri fræðslu og útgáfu GÍ þýddi greinina ur dönsku með leyfi danska Gigtarfélagsins sem gaf hana út sem bækling árið 2003. Á frummálinu er titillinn Værd at vide om Fibromyalgi.

Hvað er vefjagigt?

Vefjagigt einkennist af langvarandi útbreiddum stoðkerfisverkjum ásamt fjölmörgum öðrum einkennum. Þetta sjúkdómsástand hefur verið þekkt í mörg hundruð ár og verið nefnt ýmsum nöfnum í gegnum tíðina svo sem „vöðvagigt“, „mjúkvefja­gigt“, „taugaveiklun“, „álagseinkenni“ og fleira. Árið 1990 voru alþjóðleg greiningarskilmerki ákveðin og sjúkdómnum gefið nafnið vefjagigt (enska: fibromyalgia), en það nafn þykir lýsa sjúkdómnum betur en fyrri nöfn.

Aðaleinkenni vefjagigtar eru langvarandi útbreiddir stoðkerfisverkir, þreyta og skert líkamlegt úthald. Verkirnir virðast vera í vöðvunum eða í kringum liðina í handleggjum, fótleggjum, hálsi, öxlum og baki. Ástæður verkjanna eru óljósar og hafa verkirnir tilhneigingu til að breiðast út um allan líkamann. Sjúklingurinn lýsir líðaninni þannig að honum „sé allsstaðar illt“. Vöðvarnir virka stífir eins og um sé að ræða harðsperrur og verkirnir eru á mismunandi stöðum í líkamanum. Verkirnir sveiflast í styrkleika og hversu lengi þeir vara. Jafnvel minnsta álag eða áreynsla getur leyst úr læðingi bæði verki og þreytu sem valda oft erfiðleikum í daglegu lífi.

Vefjagigt

Ef hægt er að útiloka aðra sjúkdóma sem útskýrt gætu verkina er talað um vefjagigt sem frumsjúkdóm. Sjúkdómurinn byrjar oft hjá fólki á aldrinum 20-55 ára og yfir 90% sjúklinga eru konur. Sjúkdómurinn getur einnig lagst á börn, unglinga, karlmenn og eldra fólk. Í upphafi eru verkirnir yfirleitt staðbundnir, t.d. í öxlum eða handleggjum, en svo kemur að því að verkirnir breiðast út um svæðið í kring og síðan um allan líkamann. Sjúkdómurinn hefur yfirleitt verið til staðar í mörg ár áður en hann er greindur.

Skýringin er að hluta til tengd því að hvorki er hægt að greina sjúkdóminn með blóðprufum eða röngtenrannsóknum og að áþekk einkenni geta fylgt öðrum sjúkdómum. Að lokum er víða langur biðlisti sem komið getur í veg fyrir að unnt sé að gera þær rannsóknir sem þarf til að greina sjúkdóminn.

Þættir sem geta haft áhrif á að sjúkdómurinn leysist úr læðingi geta til dæmis verið erfið eða einhæf störf, slys, vírussýkingar, streita í daglegu lífi, sálræn vandamál og geta til að takast á við langvinnt ástand streitu og verkja og svefnleysi. 

Vefjagigt sem fylgisjúkdómur annarra sjúkdóma

Öðrum sjúkdómum geta einnig fylgt verkir í stoðkerfi, t.d. efnaskipta­sjúkdómum, lifrarbólgu, gigt, ofhreyfanleika, þunglyndi og illkynja sjúkdómum. Þessir sjúkdómar eru ekki alltaf langvinnir og marga er hægt að meðhöndla. Þessvegna er mikilvægt að rannsaka hvort um aðra sjúkdóma en vefjagigt geti verið að ræða með því að taka hefðbundnar blóðprufur, taka nákvæma sjúkrasögu og framkvæma ýtarlega læknisskoðun. Ef ekkert athugavert kemur fram við þessar rannsóknir eru litlar líkur á að um einhvern annan sjúkdóm en vefjagigt sé að ræða. Oft líður langur tími áður en greiningin er staðfest og ef hugsanlega er um undirliggjandi sjúkdóm að ræða þá mun hann þróast og verða sýnilegur innan þess tíma. 

Hversvegna fær fólk langvinna verki?

Þróun langvinnra verkja verður til í flóknu samspili margra þátta, m.a. sársaukaáreita, getu taugakerfisins til að vinna úr þessum áreitum, getu taugakerfisins til mótunar, persónuleikaeinkennum, félagslegum aðstæðum, streitu og fleiru.

Sársaukaboð/áreiti er sá atburður sem verður til þess að þú finnur fyrir sársauka: Ef þú t.d. brennir þig á heitri hellu, þá er bruninn sársaukaáreiti og boðin sem fara til heilans eru sársaukaviðbrögð.

Þetta samspil viðhelst af ýmsum sjálfstyrkjandi vítahringjum. Einn mikilvægur þáttur er svokölluð verkjamögnun, en það er heiti á því fyrirbæri, að eitt endurtekið, - en ekki sérstaklega óþægilegt – sársaukaboð skapar breytingu í taugafrumum og orsakar breytingar á taugakerfinu í mænu og heila, þannig að það þarf stöðugt kraftminni og minna óþægileg boð til að leysa sársaukaáreiti úr læðingi. Annar mikilvægur þáttur er hvernig þær stöðvar í heilaberkinum sem skynja og túlka sársauka starfa, en oft verður truflun á þeirri starfsemi. Þriðji þátturinn sem er mikilvægur er langvinnt álag sem getur valdið breytingum á starfsemi ríkjandi hormóna í heilanum. 

Svona geta verkir í vefjagigt hafist:

Lýsimynd um upphaf verkja í vefjagigt

Þetta líkan sýnir þróun langvinnra verkja og megin einkenna.

Hvernig er sjúkdómurinn greindur?

Árið 1990 lagði The American College of Rheumatology, (Félag bandarískra gigtlækna) fram eftirfarandi greiningarskilmerki á vefjagigt og eru þau enn notuð við greiningu vefjagigtar.

  • Langvinnir verkir ( þ.e.a.s. verkir sem þurfa að hafa staðið yfir í meira en þrjá mánuði) í bæði hægri og vinstri líkamshluta og efri og neðri hluta líkamans (hinum svokölluðu fjórum líkamshlutum).
  • 11 eða fleiri af hinum 18 punktum sem eru sýndir á myndinni til hægri eru aumir við þrýsting með fingri sem svarar til 4 kg. þunga. Einkennandi verkjaviðbrögð koma fram við þrýsting á eymslapunkta, það er að segja að maður hreyfir sig til að forðast þrýstinginn á eymslapunktinn eða lætur í ljósi að maður finni til. Læknirinn notar oft ensku skilgreininguna “ tender point” eða eymslapunkta um þessa aumu eða viðkvæmu vöðvapunkta.
  • Engar ákveðnar blóðprufur, vefja- eða röngtenrannsóknir geta staðfest sjúkdómsgreininguna. Ekki er heldur nein aðferð til sem getur útilokað vefjagigt sem greiningu. Þess er heldur ekki krafist að um önnur einkenni sé að ræða. Það er þó mikilvægt að útiloka önnur vandamál sem orsaka verki eða aðra sjúkdóma þannig að hægt sé að meðhöndla undirliggjandi sjúkdóm. Einkenni sem heyra til vefjagigtar geta verið til staðar þó að eymslapunktar séu færri en 11.
Mynd af verkjapunktum líkamans

Staðsetning eymslapunktanna:

  • Við vöðvafestur í hnakkarót beggja megin
  • Framan á hálsi fyrir ofan viðbein beggja vegna
  • Á milli herðablaða sitt hvoru megin við hryggsúlu
  • Aftan á baki á mótum axlar og háls beggja vegna miðlínu
  • Á bringunni milli brjóstanna beggja vegna
  • Utanvert á olnboga á báðum handleggjum
  • Sitthvoru megin við hryggsúlu neðan mittis
  • Hliðlægt á mjöðmum beggja vegna
  • Miðlægt á hnéskeljum á báðum hnjám

Sumir læknar eru tregir til að greina eða nefna greininguna vefjagigt, en ef þú hefur svipuð einkenni og lýst er hér að framan, getur þú beint athygli læknisins að þessum sjúkdómi.

Helstu einkenni

Venjulega eru mörg einkenni til staðar við vefjagigt sem eru ósértæk, þ.e.a.s. samskonar einkenni geta tilheyrt mörgum öðrum sjúkdómum og segja þau ein og sér ekkert um að þau heyri til vefjagigtar. Aðaleinkenni eru venjulega starfræn, en það heiti nota læknar þegar ekki er hægt að finna aðra skýringu á einkennunum en að þau sé vegna tilfinningalegra viðbragða. Þú getur einnig verið með þessi einkenni án þess að vera með vefjagigt eða einhvern annan sjúkdóm. Margir hafa farið í gegnum nákvæmar rannsóknir vegna þessara einkenna, t.d. maga- og ristil­rann­sókn­ir, kvensjúkdómarannsóknir eða skurðaðgerðir, asma- og ofnæmisrannsóknir, tauga­rannsóknir o.s.frv.

Þreyta

Eitt af aðaleinkennum vefjagigar er þreyta, sem leysist úr læðingi við lítið álag. Þreytan ásamt verkjum getur verið yfirþyrmandi. Margir eiga erfitt með að ráða við heimilisstörf eins og þrif eða innkaup nema með því að taka sér oft hvíld.

Svefntruflanir

Svefntruflanir hrjá flesta og þeir vakna aldrei úthvíldir vegna þess að þeir ná ekki djúpsvefninum, en hann er talinn mikilvægasti hluti svefnsins með tilliti til hvíldar. Margir eiga í erfiðleikum með að sofna vegna þess að erfitt er að finna þægilega líkamsstellingu. Einnig vakna margir endurtekið upp á nóttu meðal annars vegna verkja og þá getur verið erfitt að sofna aftur.

Ofurnæmni vegna álags

Það er einnig einkennandi að manni versnar við líkamlega áreynslu (enska: Exercise intolerance), þar sem álag sem er aðeins meira en venjulega, getur framkallað aukna vöðvaverki og þreytu næstu daga á eftir. Sumum reynist erfitt (sérstaklega vegna þreytu) að tala, lesa, hugsa og einbeita sér, finna réttu orðin eða tjá sig skilmerkilega. Bókstafirnir geta runnið saman eða myndað orð sem engin meining er í. Maður getur neyðst til að lesa sama texta aftur og aftur til að ná innihaldinu. Erfitt getur verið að fylgja bíómynd eða muna skilaboð og samtöl vegna einbeitingarörðugleika.

Þunglyndi

Þunglyndiseinkenni, depurð og kvíði eru algeng einkenni og einhvern tíma í sjúkdómsferlinu getur fólk fundið fyrir þunglyndi sem þarfnast meðhöndlunar.

Ofurnæmni í húð

Ofurnæmni í húð er einnig algengt og lýsir sér sem brennandi, svíðandi eða prirrandi tilfinning sem getur færst á milli líkamshluta. Mikil eymsli geta verið í húðinni þannig að aðeins léttur þrýstingur á hana (t.d. faðmlag) getur valdið verkjum. Sumir finna fyrir doðatilfinningu i fingrum og tám eða eyrnasuði (tinnitus), sem er hvimleitt hljóð eða blástur fyrir öðru eða báðum eyrum. Hér fyrir neðan er að finna einkenni sem geta fylgt vefjagigtinni í meiri eða minni mæli.

Algeng einkenni vefjagigtar :

  • Verkir
  • Þreyta
  • Svefntruflanir
  • Morgunstirðleiki
  • Lestrar-, tal- og minniserfiðleikar
  • Einbeitingarskortur
  • Svíðandi tilfinning í húðinni
  • Náladofi og dofatilfinning í fingrum, tám og í kringum munninn
  • Eyrnasuð (tinnitus)
  • Þunglyndishugsanir
  • Höfuðverkur
  • Jafnvægisröskun
  • Hjartsláttarköst og andþrengsli
  • Órólegur ristill og þvagblaðra
  • Tíðatruflanir (sársaukafullar, óreglulegar og miklar blæðingar)
  • Streita og óróleiki í líkamanum
  • Aukin næmni gagnvart sterkri lykt, sterku ljósi og hávaða

Meðferð

Það er engin meðferð til sem læknar vefjagigt að fullu. Meðferðin beinist að því draga úr eða ráða bót á þeim óþægindum sem fylgja sjúkdómnum. Mikilvægast er að þú og þínir nánustu séuð virk í meðferðinni og leitið sjálf leiða til að finna út hvað er best. Einn af grunnþáttum meðferðarinnar er að vera eins virk/ur og mögulegt er til að koma í veg fyrir félagslega einangrun sem auðvelt er að lenda í.

Verkja- og bólgueyðandi lyf

Það eru ekki til nein lyf sem virka þannig að einkennin hverfi alveg og þess vegna er ekki viturlegt að reyna að losna við verkina með sífellt aukinni lyfjatöku og sterkari lyfjum. Mælt er með almennum verkjalyfjum sem seld eru í lausasölu í apótekum (s.s. Paracetamol). Sterkari lyf eins og bólgueyðandi gigtarlyf er hægt að taka sem viðbót eftir þörfum og ráðleggingu læknis. Morfínskyld lyf ætti að forðast þar sem þau eru ávanabindandi. Sterar virðast ekki hafa nein áhrif.

Svefnbætandi lyf

Svefntruflanir eru veigamikið einkenni í vefjagigt og mjög mikilvægt er að koma svefninum í lag. Nær öll þau lyf sem gagnast við vefjagigt, bæta svefninn, sérstaklega svokölluð þríhringlaga þunglyndislyf, s.s. lyfið Amilín sem hefur í samanburðarrannsóknum sýnt sig vera eitt af fáum lyfjum sem virkar bæði á verki og svefntruflanir. Það er gefið að kveldi til og í mun minni skammti við vefjagigt en notaður er til að meðhöndla þunglyndi.  Óþægilegar aukaverkanir geta komið fram svo sem þurr slímhúð í munni og aukin líkamsþyngd.  Hluti sjúklinga þolir þessi lyf nokkuð vel en aðrir ekki. Nýrri geðdeyfðarlyf (Fontex, Cipramil, Seroxat, Remeron og fleiri) virðast ekki virka á verki vefjagigtar.

Neurotin og Lyrica eru lyf sem upphaflega voru notuð sem flogaveikilyf, en hafa einnig reynst nokkuð vel við vefjagigt. Þau eru gefin fyrir svefn, hafa svefnbætandi áhrif og draga úr verkjum.  

Líkamleg þjálfun

Vefjagigt leiðir oft til minni hreyfingar og virkni í daglegu lífi. Hreyfingarleysi hefur neikvæðar afleiðingar í för með sér og til að vinna gegn þeim skiptir mjög miklu að þú stundir einhverja líkamlega þjálfun. Þar sem líkamlegt álag getur framkallað verki og þreytu er mikilvægt að reyna að finna þjálfun og hreyfingu við hæfi og sem þú ræður við. Það getur til dæmis verið slökun (yoga, Tai Chi, hugleiðsla o.fl.), róleg leikfimi eða vatnsþjálfun (hitastig í almenningssundlaugum er yfirleitt of lágt, þarf að vera ca. 33°C). Það getur verið góð hugmynd að skrá sig í reglulega þjálfun t.d. í hóp einu sinni til þrisvar í viku. Það þurfa helst að líða tveir til þrír dagar á milli þeirra tíma og þá daga tekur þú lífinu rólegar og ferð þér hægar til dæmis með því að fara í göngu eða, ef hægt er, út að hjóla. Nauðsynlegt er  að gera daglega léttar liðkandi æfingar og teygjur.

Nokkur atriði sem geta auðveldað daglegt líf:

  • Farðu í heitt bað
  • Forðastu að bera þunga hluti
  • Settu hendur og úlnliði í heitt vatn til að draga úr óþægindum
  • Skiptu oft um líkamsstöðu
  • Sofðu í herbergi sem er hljótt, myrkvað og með réttu og jöfnu hitastigi
  • Spilaðu róandi tónlist
  • Ræddu við vini og kunningja
  • Taktu þátt í fundum og fræðslu Gigtarfélagsins
  • Notaðu stuðningspúða í bílsæti og stóla
  • Vertu með þægileg húsgögn (stóla, rúm, sófa)
  • Notaðu hlý teppi til að auka þér vellíðan
  • Notaðu hitabakstra eða ísbakstra
  • Stundaðu slökun reglulega

Sjúkraþjálfun

Sjúkraþjálfun er gagnleg fyrir flesta með vefjagigt. Sjúkraþjálfarinn getur leiðbeint með æfingar sem flestir með vefjagigt geta ráðið við, svo sem slökunar- og teygjuæfingar og léttar æfingar á gólfi. 

Sjúkraþjálfari getur liðsinnt með:

  • Fræðslu um sjúkdóminn og leiðir til betri heilsu
  • Fundið þjálfun við hæfi og útbúið æfingaáætlun sem tekur á þínum vandamálum
  • Leiðbeint með góða líkamsstöðu og líkamsbeitingu.
  • Leiðbeint varðandi líkamsvitund og jafnvægisþjálfun
  • Kennt aðferðir til slökunar
  • Hjálpað við að minnka verki

Þjálfun

Það er ekkert sem styður það að hreyfing sé skaðleg fyrir einstaklinga með vefjagigt, þó svo að sjúkdómurinn einkennist af langvinnum dreifðum verkjum og yfirþyrmandi þreytu við líkamlega virkni. Aftur á móti  sýna allar nýjustu rannsóknir að eigi þjálfun að koma að gagni þarft þú að byrja rólega með lítið álag og auka smátt og smátt á löngum tíma, jafnvel mörgum mánuðum.

Hreyfing getur verið margs konar s.s. gönguferðir, skokk, hjólreiðar, vatnsþjálfun og þjálfun í líkamsræktarstöð. Best er að byrja með t.d. 5-10 mínútna göngutúr þrisvar í viku. Aðra hverja viku eykur þú tímann þar til þú ert komin upp í 20-30 mínútur. Eftir það er erfiðið aukið með því að ganga lengra og lengra á þessum 20-30 mínútum, en mundu að auka álagið aðeins aðra hverja viku. Gott er að skrá niður í dagbók eða á dagatal hversu mikið þú hefur þjálfað. Það getur hjálpað þér að átta þig á tengslum álags og einkenna, að finna þín mörk og fylgjast þannig með framförum.

Við styrktarþjálfun verður að fara varlega af stað til að ofgera sér ekki og framkalla aukin einkenni. Eftirfarandi áætlun fyrir styrktarþjálfun hefur reynst vel:  

1.-3. vika:

  • 5-10 endurtekningar með 40-50% af hámarksstyrk

4.-7. vika:

  • 10-12 endurtekningar með 50-60% af hámarksstyrk

8.-14. vika:

  • 8-12 endurtekningar með 60-70% af hámarksstyrk

15.-21. vika:

  • 5-10 endurtekningar með 70-80% af hámarksstyrk

Eftir 21 viku:

  • Viðhaltu þessu álagi eða, ef hægt er, auktu það þá smátt og smátt með annari þjálfun eða hreyfingu.

Gott er að fá sjúkraþjálfara til að setja saman æfingaáætlun fyrir þig þar sem þú gerir 6-8 æfingar fyrir bak, maga, handleggi og fótleggi. Hafðu hlé milli æfinga,  2-3 mínútur er venjulega nóg, en í upphafi getur þú þurft á 5 mínútna hvíld að halda milli æfinganna. Þjálfa skal 2-3 á viku.

Iðjuþjálfun

Iðjuþjálfun hefur það að markmiði að efla færni fólks í daglegu lífi og auka sjálfstæði og lífsfyllingu. Sjúkdómar og aðrir erfiðleikar geta haft áhrif á daglega iðju fólks og koma m.a.  fram í skertri starfsgetu, verkjum, stirðleika, máttleysi og þreytu. Þjónusta iðjuþjálfa tekur á þessum vandamálum með kerfisbundnum og einstaklingsmiðuðum hætti þar sem efling iðju er í brennidepli.

Iðjuþjálfinn getur liðsinnt með:

  • Almennt:  Iðjuþjálfinn aðstoðar einstaklinga með vefjagigt að kortleggja vandamál sín, forgangsraða og skipuleggja dagleg verkefni hvort heldur sem er á heimili eða í vinnu viðkomandi. Hvetur til virkni og reglubundinnar hreyfingar, að byggja upp daglega rútínu. Iðjuþjálfinn býður einnig upp á sérstaka meðferð og æfingar til að draga úr handar-, axlar- og hálsmeinum. Metur þörf fyrir og útvegar hjálpartæki og vinnuspelkur og veitir ráðgjöf um notkun þeirra
  • Sjálfshjálp: Leiðbeinir um aðferðir við persónulega umhirðu og við að klæða sig, til dæmis ef erfitt er að hneppa tölum, þurrka sér eftir bað og greiða hár.
  • Heimilishald og vinna :  Leiðbeinir um skipulag á heimili og vinnustað. Kennir réttar vinnustellingar við sitjandi og standandi vinnu, svo sem við tölvu, að skúra, skera niður matvæli og þess háttar.

Nálastungur

Sumum gagnast nálastungur, öðrum ekki. Árangur er oftast skammvinnur, en þó kemur fyrir að nálastungur virki í allt að hálft ár.

Óhefðbundnar lækningar

Það eru ekki til viðurkenndar klínískar rannsóknir sem geta sagt um hvort gagn sé að svokölluðum óhefðbundnum lækningum. Á mörgum heimasíðum á netinu er hægt að lesa um góðan árangur af hinni eða þessi meðferðinni við vefjagigt, en þú ættir almennt að vera varkár og vakandi gagnvart þessum staðhæfingum því það sem gagnast einum gagnast ekki endilega öðrum.

Viljir þú prófa sérstakt fæði eða einhverja óhefðbundna meðferð, gerðu það þá í samráði við lækninn þinn, svo hægt sé að taka það með í mat á meðferð þinni að öðru leyti. Haltu dagbók í nokkrar vikur þar sem þú berð saman líðan þína fyrir og eftir þessa óhefðbundnu meðferð þannig að þú getir séð hvort þér líði betur af henni.

Að höndla verkina

Ef þú ert með langvinna verki er nauðsynlegt að læra að takast á við þá. Það er gert m.a. með því að leita leiða til að auðvelda tilveruna og minnka streituþætti. Einnig er um að ræða hugrænt ferli sem getur tekið mörg ár og gengur út að að læra að lifa með langvinnum verkjum. Engar auðveldar lausnir eru á því hvernig komast má í gegnum þetta hugræna ferli. En með því að vera áfram virk/ur og setja sér raunhæf markmið má með tímanum sætta sig við verkina og minnkandi færni. Það þarf að læra að setja sér raunhæf markmið og gleðjast yfir því sem maður getur í staðinn fyrir að ergja sig yfir því sem maður getur ekki. Þú þarft að læra að lifa með sjúkdómnum á virkan hátt, þar sem þú prófar helst daglega hvað þú ræður við og reynir þannig á allan hátt að gefa lífinu gildi á jákvæðan og innihaldsríkan hátt.

Hugræn atferlismeðferð

Eins og við aðra gigtarsjúkdóma hafa langvinnir verkir vefjagigtar áhrif á andlega líðan.  Áhrifin hafa í för með sér að maður bregst við á ákveðinn hátt, sem í flóknu samspili getur viðhaldið verkjunum og minnkað getu til að takast á við verkina á uppbyggjandi hátt. Ein aðferð til að vinna með og breyta þessu sálræna hegðunarmynstri er hugræn atferlismeðferð, sem getur verið góð aðferð til að brjóta niður vítahringi. Það eru yfirleitt sálfræðingar sem nota hugræna atferlismeðferð og meðferðin beinist að því að skoða neikvæðar niðurrifshugsanir sem valda vanlíðan og hjálpa fólki að finna hjálplegri og uppbyggilegri leiðir.

Sálfræðiaðstoð

Almenn sálfræðiaðstoð er notuð til að hjálpa við lausnir á vandamálum sem komið geta upp í kjölfar langvinns verkjaástands sem hefur að sjálfsögðu áhrif bæði heima og í vinnu.

Margir með vefjagigt geta fyrr eða síðar lent í ástandi sem líkist áfalli sem getur jafnvel þróast yfir í þunglyndi. Samtöl við sálfræðing geta hjálpað einstaklingi að komast fyrr yfir áfallið og gefið honum fleiri bjargráð til að takast á við daglegt líf.

Félagsráðgjafi

Einstaklingar með vefjagigt geta lent í erfiðleikum með atvinnuna og nauðsynlega þurft að fá ráðgjöf um hvert hægt sé að snúa sér varðandi mismunandi félagsleg vandamál sem upp koma. Þú ættir því snemma í ferlinu að ræða við félagsráðgjafa þannig að þú sért betur undir það búin/n að takast á við þær mismunandi leiðir sem eru færar.

Nýlega var opnuð heimasíða:  www.vefjagigt.is þar sem Sigrún Baldursdóttir sjúkraþjálfari fjallar mjög ýtarlega um vefjagigt og ýmiskonar meðferð og leiðir til að takast á við hana.

 

Svala Björgvinsdóttir verkefnastjóri fræðslu og útgáfu GÍ þýddi greinina úr dönsku með leyfi danska Gigtarfélagsins sem gaf hana út sem bækling árið 2003. Á frummálinu er titillinn  Værd at vide om Fibromyalgi.

Sólveig B. Hlöðvesdóttir sjúkraþjálfari og Guðbjörg Guðmundsdóttir iðjuþjálfi lásu yfir og staðfærðu kafla um sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun.