Rauðir úlfar og sólaróþol

Svala Björgvinsdóttir þýddi. 

Útfjólublátt ljós (UV-ljós) getur haft áhrif á sjúkdóminn rauða úlfa og komið af stað ein­­kennum eins og útbrotum, hækkuðum líkamshita, þreytu og verkjum. Sólin er aðaluppspretta UV-ljóss. Þess vegna er mikilvægt að vernda sig sem mest gagnvart sólinni, en einnig er mikilvægt að forðast notkun ljósabekkja. Ýmsar aðstæður tengdar ljósum geta haft áhrif á sjúkdóminn, það getur m.a. átt við um halogenljós, fluorljós, lýsingu af ljósritunarvélum og tölvu­skermum. Þættir eins og streita, ónóg hvíld, tilfinningalegt álag, áfengis- eða lyfja­neysla geta einnig leitt til húðútbrota.

Útfjólublátt ljós (UV-ljós) getur haft áhrif á sjúkdóminn rauða úlfa og komið af stað ein­­kennum eins og útbrotum, hækkuðum líkamshita, þreytu og verkjum. Sólin er aðaluppspretta UV-ljóss. Þess vegna er mikilvægt að vernda sig sem mest gagnvart sólinni, en einnig er mikilvægt að forðast notkun ljósabekkja.

Ýmsar aðstæður tengdar ljósum geta haft áhrif á sjúkdóminn, það getur m.a. átt við um halogenljós, fluorljós, lýsingu af ljósritunarvélum og tölvu­skermum. Þættir eins og streita, ónóg hvíld, tilfinningalegt álag, áfengis- eða lyfja­neysla geta einnig leitt til húðútbrota.

Vert að vita:

  • UV-ljós skiptist í UVA, UVB og UVC-geisla. UVC-geislarnir stöðvast í ósonlagi andrúms­loftsins, meðan bæði UVA- og UVB-geislarnir ná yfirborði jarðar. Endurkast sólar­geisla frá snjó, sandi og vatni gerir geislana öflugri. UVB-ljós er öflugast í mikilli hæð og við miðbaug. UVB-geislarnir eru aðalorsök sólbruna, en einnig aðalorsök ljósnæmra útbrota sem eru þekkt við rauða úlfa. Styrkleiki UVA-geislanna er  breytilegur eftir tíma dags og breiddargráðu á jörðinni. UVA-geislar geta einnig leitt til þess að sjúkdómurinn blossi upp hjá sumum.
  • Bæði hvítir og dökkir einstaklingar geta verið viðkvæmir gagnvart sólinni og sjúk­dómurinn orðið virkari við það að vera í sólskini.
  • Lyf eins og t.d. sum sýklalyf og súlfalyf geta aukið næmni húðarinnar gagnvart sólar­geislum. Ráðfærðu þig við gigtarlækni eða apótek ef þú ert með spurningar varðandi lyf.

Praktísk ráð við sólaróþoli

Föt sem vernda húðina gegn UV-ljósi

  • Mikilvægt er að bera á sig sólarvörn, jafnvel undir fatnað.
  • Mælt er með langerma skyrtu, bolum eða peysum og buxum eða síðu pilsi.
  • Barðastór hattur veitir góða vörn fyrir hnakka, augu, eyru og nef.
  • Notaðu sólgleraugu sem falla vel að andlitinu og með vörn gagnvart bæði UVA- og UVB-geislum.
  • Þunnur og þéttofin bómullarfatnaður veitir góða vörn. Á meðan lausofin hvít skyrta verndar eins og sólarvörn með stuðul 7, vernda þéttofnar buxur eins og sólarvörn með stuðul 1200.
  • Efni úr ljósum litum sleppa í gegn meiri geislum en efni úr dökkum litum. Hvítt efni verndar betur en beinhvítt efni, þar sem hvítt efni inniheldur bleikiefni sem dregur í sig og endurkastar UV-geislunum.
  • Vörn fatnaðar gagnvart UV-geislum minnkar um helming ef fötin eru blaut. Til dæmis veitir blautur stuttermabolur lélega vörn gegn geislunum.
  • Sumir framleiðendur íþróttafata eru með fatnað, þar á meðal sundföt sem eru útbúin með sólarfilter/vörn. Athugaðu hvort stærri íþróttabúðir hafi eða geti útvegað þannig  sundföt. Hjá hárkollugerð Kolfinnu Knútsdóttur eru til bómullarhöfuðföt þar sem búið er að vefa 50-SPF sólarvörn í þráðinn í efninu. Fyrir börn eru til stuttermabolir og heilir gallar með sólarvörn sem fást í stærri íþróttaverslunum ( m.a. Intersport og Útilífi)

Önnur vörn gegn UV-ljósi

  • Forðastu sólina um miðjan daginn, hún er sterkust milli kl. 11.00 og 15.00.
  • Sólhlíf gefur ekki endilega næga vörn. Notaðu einnig sólarvörn.
  • Vertu skuggamegin þegar þú ferð út í göngutúr. Forðastu að sitja sólarmegin í bílnum, rútunni eða lestinni því UVA-geislar geta farið gegnum venjulegt gler. Notaðu sólarvörn með hæsta sólvarnarstuðli þó svo að þú haldir þig í skugganum.
  • Góð not eru af filmu með UV-vörn í, sem hægt er að setja innaná bílrúður. Til eru nær litlausar filmur.
  • Notaðu sólskyggni fyrir glugga.
  • Sumir geta þurft að setja geislasíu á tölvuskerminn og skipta flúorljósi eða halogenljósi í venjulegar ljósa­­perur.

Sólarkrem sem vörn við UV ljósi

Vert að vita:

  • Sólarkrem eru flokkuð eftir því hversu vel þau vernda húðina gegn UVB-geislum og er það skráð sem sólarvarnarstuðull (Sun Protective Factor= SPF). Einstaka vörur eru að auki merktar med sólarvarnar­stuðli fyrir UVA-vörn.
  • Taktu eftir að uppgefinn sólarvarnarstuðull gildir fyrir smurningu á þykkra lagi en flestir smyrja sig venjulega með. Fullorðinn einstaklingur þarf ca. 30 ml. af sólarkremi til að smyrja allan líkamann.
  • Það koma stöðugt ný sólarkrem á markaðinn. Sólarkrem eru skilgreind sem snyrtivara og ekki sem lyf. Upplýsingar um þau geta oft verið takmarkaðar og upplýsingar um vöruinnihald stundum ábótavant.

Praktísk ráð við notkun sólarkrema

  • Veldu alltaf krem sem vernda þig bæði gagnvart UVB- og UVA-geislum.
  • Í dag ráðleggja húðlæknar og gigtarlæknar fólki með rauða úlfa að nota fullkomnustu sólarvörn sem völ er á, helst, með sólarvarnarstuðli 60 og gjarnan með innhaldsefninu Mexoril sem veitir sæmilega vörn gegn UVA-sólargeislum, auk mjög góðrar varnar gegn UVB- geislunum. Auk þess er nauðsynlegt að klæða sig vel og best er að vera með barðastóran hatt. Derhúfa getur verið góð en ver þó ekki eyru og háls á sama hátt og hattur með stórum börðum.
  • Húðin á að vera hrein þegar kremið er borið á hana.
  • Mörg sólarkrem á að smyrja á sig hálftíma áður en farið er út í sólskinið og síðan á tveggja tíma fresti.
  • Smyrðu ríkulega, gjarna tvisvar á útsetta staði eins og axlir, andlit og eyru. Mundu einnig eftir höndunum.
  • Sólarkrem eiga helst að vera vatnsheld. En áhrifin af sólarvörninni minnka yfirleitt eða jafnvel hverfa við að fara í vatn/sund og það sama á við ef maður svitnar. Þó það standi “Waterresistent” sem þýðir að sólarvarnarstuðull er óbreyttur eftir 40 mínútur í vatni eða “Waterproof” sem segir að sólarvarnarstuðullinn sé óbreyttur eftir 80 mínútur í vatni, ráðleggja húðlæknar fólki með rauða úlfa að bera aftur á sig sólarkrem um leið og komið er upp úr vatni/sundlaug.
  • Sólarkrem þarf að fá að þorna vel áður en snyrtikrem eru borin á húðina.
  • Sólarkrem eru með “síðustu notkunardagsetningu” og missa smám saman virknina. Geymsla í raka og hita t.d. í strandtösku, styttir notkunartíma.
  • Fyrir suma er nauðsynlegt að nota sólarvörn undir fötunum. 
Þýdd grein úr norsku af Svölu Björgvinsdóttur með leyfi norska gigtarfélagsins.