Tár, tappar og ýmis lyf - stórstígar framfarir við meðferð á þurrum augum

Grein eftir Jóhannes Kára Kristinsson, sérfræðing.

Tárin okkar smyrja augun og halda þeim rökum, vernda þau fyrir ryki og sjá þeim fyrir nauðsynlegum næringarefnum. 
Í þessari grein fjallar Jóhannes Kári Kristinsson, sérfræðingur í hornhimnulækningum og sjónlagslækningum með laser, um þurr augu og hvað er til ráða. 

Tárin okkar smyrja augun og halda þeim rökum, vernda þau fyrir ryki og sjá þeim fyrir nauðsynlegum næringarefnum. Þegar augun okkar framleiða ekki nægilega mikið af tárum eða tárin eru ekki nægileg að gæðum myndast það sem áður var nefnt óþjálum nöfnum á borð við “keratoconjunctivitis sicca” og “xerophthalmia", en nefnist nú einfaldlega augnþurrkur eða þurr augu

Einkenni þurra augna eru eftirfarandi:

  •  Þurrkatilfinning (jú, kemur ekki á óvart)
  • Táraflæði (kemur flestum í opna skjöldu)
  • Aðskotahlutstilfinning
  • Sviði 
  • Kláði
  • Sársauki
  • Sjónmissir
  • Roði 
  • Vatnskennd útferð

 Táraflæði?

 Já, þurr augu geta raunar valdið auknu táraflæði. Þetta gerist þegar augun verða auðertanleg í kjölfar augnþurrks. Kirtlar á og í kringum augun búa nefnilega til tvennskonar tár – við getum kallað þau smurningstár og grát- eða ertingartár. Við getum nánast sagt að um sé að ræða tvær aðskildar táraverksmiðjur. Önnur er í gangi 24/7 og býr til þykk næringarrík tár sem smyrja augu og vernda. Þessi verksmiðja er staðsett víðsvegar í slímhúð augnanna sjálfra. Hin verksmiðjan er staðsett í stórum kirtlum sem húka eins og óveðursský fyrir ofan augun. Sú býr til vatnskennd tár sem fyrst og fremst er ætlað að skola augun eða þegar við grátum. Það er alltaf til nóg af þessari tegund tára. Það eru smurningstárin sem okkur vantar stundum og getur það verið af ýmsum orsökum, sem ræddar verða frekar á eftir. Þegar smurningin er af skornum skammti koma þurrkablettir fram á slímhúð auk hornhimnu augans og gera augun auðertanleg. Þegar einstaklingur gengur síðan út í íslenska rokið þorna augun enn meir upp og ræsa stóru kirtlana sem útbúa ertingar- og gráttárin.  Þessi tár eru þunn og vatnskennd og leka niður kinnarnar. Þannig valda þurr augu táraflæði og þá vitið þið það.

Orsakir eru ýmsar

Johannes-augnlaeknirEn hvað veldur augnþurrki?  Oft er ekki hægt að finna neinar sérstakar orsakir, en þetta er eitt af því sem verður algengara með aldrinum.  Augu verða oftast þurr vegna þess að ekki er nægilega mikið framleitt af tárum en geta í sumum tilvikum orðið þurr vegna of mikillar uppgufunar á tárum, líkt og getur komið fram þegar augu eru opin á næturnar (já, sumir sofa með opin augun) og þegar fitufilman ofan á tárunum er ekki rétt samansett, líkt og sést í hvarmabólgu. Þurr augu fylgja oft sumum sjúkdómum og eru þeirra þekktastir líklega ýmsir sjálfsofnæmissjúkdómar. Meðal þeirra er iktsýki, en ekki má gleyma að sá hluti ónæmiskerfisins sem ræðst á liði í þeim sjúkdómum hafa jafnframt áhrif á kirtlana sem framleiða smurningstárin. Aðrir ónæmissjúkdómar þar sem augnþurrkur er tíður fylgifiskur eru t.d. rauðir úlfar, æðabólgusjúkdómar og síðast en ekki síst heilkenni Sjögren, þar sem ónæmiskerfið ræðst meðal annars á tárakirtla og munnvatnskirtla.  Skjaldkirtilssjúkdómur getur einnig valdið þurrum augum, bæði í gegnum ónæmiskerfið auk  tilhneigingar sumra með sjúkdóminn til að blikka sjaldnar og ófullkomið og fá útistandandi augu, sem enn eykur á augnþurrkinn. Lúmskar orsakir þurra augna geta legið í lyfjum ýmiskonar sem fólk tekur eins og sum magalyf, þunglyndislyf, lyf við bjúgsöfnun, háþrýstingslyf og ofnæmislyf.  Kvefpestir og flensur hafa einnig í för með sér minnkaða táraframleiðslu í smurningskerfi augnanna.  Svo má einnig geta þess að snertilinsur geta aukið mjög á augnþurrk þar sem linsurnar “stela” hluta af táramagni augans og gera það þurrara. Loks ber að nefna samlegðaráhrif þurra augna við hvarmabólgu, en í þeim algenga sjúkdómi verður truflun á framleiðslu fitu, sem er nauðsynlegur hluti táranna og veldur því m.a. að tárin geta haldist lóðrétt. Í hvarmabólgu gufa tárin hraðar upp og hrynja frekar niður vangana. Loks ber að geta áhrif tölvunotkunar, en blikktíðni er um 30% lægri þegar horft er á tölvu heldur en á bók og er það talin ein af orsökunum fyrir því að fólk finni til þreytu við tölvunotkun.  

Gervitár til alls fyrst

Hvað er hægt að gera?  Jú, fyrst er nauðsynlegt að prófa gervitár, en það eru augndropar sem líkja eftir tárum okkar.  Þau eru fáanleg í öllum apótekum og eru bæði til í dropaformi og Augndropargelformi.  Varast ber sérstaklega að kaupa of þunn gervitár, en það er því miður ekki óalgengt að fólk telji sig hafa fullreynt gervitár, en hafa verið að nota of þunn tár sem hjálpa of lítið og of stutt. Geldroparnir eru tilvaldir á kvöldin áður en farið er að sofa þar sem þeir virka lengur en hafa meiri áhrif á sjón, hún verður svolítið þokukennd í nokkrar mínútur eftir að þeir eru settir í.  Til eru gervitárasmyrsl sem einungis eru notuð í alvarlegum augnþurrki. Margir halda að notkun gervitára geri mann háðan þeim. Það er óþarfi að óttast það, því þetta kerfi slakar ekki á þótt þú vinnir vinnuna fyrir það um tíma. Oft dugir að nota gervitár í stuttan tíma en í einstökum tilvikum getur viðkomandi þurft að nota þau árum saman. Líta má á þetta sömu augum og að bursta tennur, einskonar viðhald og forvarnir fyrir augun. 

Silikontappar

Annað sem komið hefur fram á undanförnum árum eru silikontappar, sem smokra má í táragangaopin sem eru á augnlokum nálægt augnkrókunum.  Þessi op leiða ofan í göng, sem kölluð eru táragöng, en þau veita tárunum niður í nefkok.  Þessi göng eru nauðsynlegt frárennsli Silikontappifyrir tárin þegar táraframleiðsla er í lagi.  Ef hún er of lítil þá gera þau þurrkinn verri með því að veita burt dýrmætum tárum.  Með því að loka göngunum tímabundið eða um lengri tíma haldast tárin í augunum og þurrkur minnkar eða hverfur.  Að setja tappa í táragangaopin tekur innan við mínútu og er algjörlega sársaukalaust, nánast eins og að setja tappa í flösku. Silikontapparnir eru algjörlega hættulausir og alltaf hægt að kippa þeim úr ef þess gerist þörf. Þeir trufla yfirleitt lítið sem ekki neitt og þá einkum fyrstu dagana. Í undantekningartilvikum verður yfirflæði tára og er þá lítið mál að taka þá út.  

Restasis og önnur lyf

Fyrir allnokkru kom lyf á markaðinn sem eykur táraframleiðslu (cyclosporin-A, Restasis). Lyfið er enn sem komið er því miður undanþágulyf hér á landi, þrátt fyrir töluverða notkun á lyfinu í löndunum í kringum okkur og, þótt það hljómi einkennilega, af dýralæknum hér á landi og þá einkum í hundum. Lyfið verkar á vissa hluta ónæmiskerfisins og er talið að það virki fyrst og síðast í gegnum áhrif þess á að minnka bólgu í augunum. Því verkar það einna best á þá sem eru með þurr augu í kjölfar sjúkdóma sem skaða táraframleiðslu í gegnum ónæmiskerfið, s.s. sjálfsónæmissjúkdóma. Talið er að sumar fitusýrur, þar á meðal Omega-3 (m.a. í lýsi) geti minnkað einkenni þurra augna en nokkuð langt er þó í land með að það sé talið óyggjandi.  Aðrir meðferðarmöguleikar eru meðal annars sermisdropar, sem eru unnir úr blóði sjúklings og er það eingöngu gert á Landspítala. Erfitt er þó að koma meðferð á þessum dropum við, sérstaklega ef um er að ræða langvarandi meðhöndlun.

Mikilvægi rakastigs

Þurrkur í augum er algengt vandamál hér á landi.  Landið okkar og náttúra fara líka oft óblíðum höndum um augun okkar, þannig að Íslendingum með þurr augu líður oft betur annars staðar í hinum stóra heimi þar sem rakastig er oft hærra.  Mengun á Íslandi hefur löngum verið afar lítil en líklega er rakastig fremur lágt í híbýlum hér á landi.  Allir muna eftir gömlu loftvogunum og rakamælunum á öðrum hverjum sveitabæ hér á landi en nú er afar sjaldgæft að fólk mæli rakastig í húsum sínum.  Samkvæmt mælingum Vöndu Hellsing og Brynhildar Davíðsdóttur frá árinu 2011 er meðalrakastig í skólastofum hér á landi í kringum 33%, en mældist þó allt niður í 17%.  Samkvæmt mælingum Rannsóknarstofnunar Byggingariðnaðarins er meðalhlutfallsraki innilofts í íslenskum húsum sá sami, 33%.   Æskilegur raki í húsum er 35% - 50%.  Svifryksmagn hér á landi hefur sumsstaðar mælst mjög hátt, þó það standi yfirleitt frekar stutt. Velta má fyrir sér hversu mikil áhrif eldfjallaaska hafi á augu okkar, en vitað er að brennisteinsdíoxíð hefur ertandi áhrif á augu manna. Ekki er óalgengt að einstaklingar með þurr augu versni tímabundið eða til langs tíma við veru í kringum gosstöðvar og háhitasvæði. Jafnframt eru einstaklingar með þurr augu oft viðkvæmir fyrir klórlofttegundinni við og í kringum sundlaugar.

Að lokum

Þurr augu er einn af vanræktustu sjúkdómum hér á landi. Ekki er langt síðan að aðeins 1-2 tegundir gervitára voru til í íslenskum apótekum og umræðan um notkun á gervitárum og öðrum meðferðarmöguleikum hefur verið af skornum skammti, í það minnsta veit fólk minna um augnþurrk en Kárahnjúka. Það er líklega helst við okkur augnlækna að sakast þar sem aðgengileg fræðsla er af skornum skammti um þetta mikilvæga efni. Vonandi mun greinarkorn þetta bæta nokkuð þar úr. 

Jóhannes Kári Kristinsson, sérfræðingur í hornhimnulækningum og sjónlagslækningum með laser. 

Birt í Gigtinni, 1. tbl. 2015